11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Jón Sigurðsson:

Það er nokkuð langt síðan ég kvaddi mér hljóðs, og hefir því ýmislegt komið fram síðan, en ég skal fara fljótt yfir sögu.

Hv. 1. þm. Árn. var að bera saman frv. eins og það er nú og frv. það, sem kom frá mþn., sérstaklega þó 5. gr. Hann þóttist hafa úr mikilli reynslu og þekkingu að moða viðvíkjandi því fyrirkomulagi, sem gert er ráð fyrir í frv. mþn. En ég vil benda á það, að það er líka reynsla fengin fyrir því fyrirkomulagi, sem n. bendir til. N. er kunnugt um, að þetta var reynsla a. m. k. í einni sýslu. Það var tekið upp í fjallskilareglugerð, og eftir 2 eða 3 ár sá sýslunefndin ekki annað fært en að nema það úr gildi, og það var af því, að skotmenn fengust ekki með þessum kjörum, enda veit hver, sem þekkir þetta, að það gelur þráfaldlegu komið fyrir, að ómögulegt sé að ná dýrunum. Það kemur og iðulega fyrir, að annað dýrið er skotið á hlaupum, og þá á skotmaðurinn að gjalda þess, að dýrið hefir verið drepið af einhverjum og einhverjum, eða við skulum segja, ef annað dýrið drepst, sem vel getur komið fyrir. Það þarf ekki annað en að hundur hlaupi á grenið, eða óvarlega sé farið að við það á einhvern hátt, svo að skotmaður hefir aldrei tækifæri til að ná dýrunum. Ég tala nú ekki um, ef það kemur fyrir, að annaðhvort dýrið kemst burt með yrðling, því að þá er með öllu ómögulegt að komast í skotfæri við þau. Sem sagt, það geta ótal atvik komið fyrir, sem gera skotmanni ómögulegt að vinna á dýrunum, án þess að það sé á neinn hátt honum að kenna. Það er því hin mesta ósanngirni gagnvart skotmanninum, ef hann á að gjalda þess.

Ég vil benda hv. 1. þm. Árn. á það, að eins og frv. liggur fyrir nú, er ekkert í vegi fyrir því, að sýslunefndir geti sett ákvæði um vinnslu fullorðnu dýranna í reglugerð þá, sem þeim er heimilað að setja. Það lá í orðum hv. 1. þm. Árn., að hann treysti ekkert á drengskap skotmanns, eða að hreppsnefndir ræki þær skyldur, sem á þeim hvíla í þessu efni. En ég held, að það mætti þó a. m. k. treysta sýslunefndum til að setja trygg ákvæði í þessu efni. Annars dettur mér ekki í hug að tortryggja hreppsnefndirnar. Ég hefi enga ástæðu til þess, heldur þvert á móti. Ég get ekki skoðað það öðruvísi en sem hverja aðra fjarstæðu, að það sé samþ. á sveitarfundum, að fullorðnu dýrunum sé sleppt.

Ég get ekki látið mér detta í hug, að nokkur íslenzkur sauðfjárbóndi vilji ala upp slíkan skaðræðisvarg í fé sínu. Það er því fráleitt, sem hv. ræðumaður hélt fram, að væri verið að gera allt landið að einu allsherjarrefabúi. (JörB: Við skulum sjá). Já, við skulum sjá; það hefir ekki komið að sök hingað til. Landið er ekki orðið neitt refabú ennþá, og þau ákvæði, sem nú er verið að setja, eru harðari en áður hefir verið, svo að ekki hjálpa þau til þess.

Þá sagði hv. þm., að n. hefði brugðizt skyldu sinni, hún hefði verið fljót að verða fyrir áhrifum frá utanaðkomandi mönnum, sérstaklega frá þeim, sem hér ættu bagsmuna að gæta. Ég held, að mér sé óhætt að segja það fyrir hönd allra samnm. minna, að þetta eru algerlega óréttmæt ummæli. Ég kannast alls ekki við þetta fyrir minn part, hvorki í þessu máli né öðru. Ég tel mér alltaf skylt að fylgja minni sannfæringu, hver sem í hlut á. Hitt tel ég einnig skyldu mína, að veita mönnum viðtal, hvað sem þeir vilja og hverrar skoðunar, sem þeir eru. Annars stönguðust þeir mest á hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. Barð., sem sagði, að þessi n. væri sú þverúðarfyllsta n., sem til væri á þessu þingi. (HK: Sem ég myndi eftir). Já, sem hv. þm. myndi eftir, og hann er nú orðinn aldraður, svo að það lítur út fyrir, að við hlaupum eftir hverjum goluþyt. Annars finnst mér, að þessi vindur, sem hv. 1. þm. Árn. hleypti af stað í þessari d., hafi verið næsta óþarfur. Alvaran hjá honum var nú ekki meiri en það, að hann bar enga brtt. fram, svo að eftir þetta þref í 2½ tíma liggur ekkert nema þessi eina brtt. frá hv. þm. Barð., sem ég get vel fallizt á.