21.03.1930
Efri deild: 57. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

8. mál, bændaskóli

Jón Baldvinsson:

Það er víst bezt, að allir nm. geri grein fyrir sinni skoðun, því að samkomulagið er dálítið losaralegt í þessari n., þar sem allir nm. hafa einhvern fyrirvara.

Ég held ekki sérlega fast við þessar brtt., sem gerðar hafa verið við frv., og hefði getað sætt mig við minni breyt. en hafa orðið ofan á í n. En þó álít ég þá tilraun til bóta í till. n., þar sem ætlazt er til að setja upp bændadeild við bændaskólana, og sem hv. 5. landsk. var að finna að.

Ég veit ekki, hvernig má búast við framförum í búnaði, ef bændum er ekki séð fyrir meiri þekkingu á landbúnaði en enn er. Ég býst við, að í framkvæmdinni verði stór fyrirmyndarbú, sem rekin eru af ríkinu, bezti skólinn, jafnvel þó að menn sæki ekki námskeið eða skóla á þessi bú. Þau dreifa út frá sér þekkingu, sem menn geta farið eftir í búskap, a. m. k. í grennd við búin.

Skólarnir eru nú ekki nema tveir hér á landi, annar á Hólum í Hjaltadal og hinn á Hvanneyri í Borgarfirði. Náttúrlega er gert ráð fyrir, að fleiri komi seinna, og það, sem mér finnst í rauninni vanta í stór landbúnaðarhéruð, t. d. fyrir austan fjall, er það, að þar þyrfti að vera eitt fyrirmyndarbú. Ég hefi áður, í sambandi við ræktunarlögin, gert uppástungu um, að þessi fyrirmyndarbú væru fjögur, hvert í einum landsfjórðungi, og ég hefi þá trú, að þau myndu veita bændum bezta fræðslu.

Sú mikla bylting, sem nú er að verða í landbúnaðinum, er ef til vill meira komin á fyrir þau miklu fjárframlög, sem bændum eru nú veitt til svo að segja allra framkvæmda, heldur en fyrir það, að bændurnir hafi sjálfir fundið þörfina fyrir þessar framkvæmdir. Ég veit, ekki, hvort bændur eru alstaðar vel við þessu búnir að nota hentuglega það mikla fé, sem þeim er nú veitt. Ég held þá vanti praktíska þekkingu á þessum efnum. Búskaparlag manna er yfirleitt gamaldags, hefir jafnvel litlum breyt. tekið síðan land byggðist, nema allra síðustu árin, og það fyrir styrk frá hinu opinbera, en þrátt fyrir það fækkar fólkinu stórlega í sveitunum.

Eins og vikið er að í nál., tel ég aðalkost frv. það, að gert er ráð fyrir, að hið opinbera reki fyrirmyndarbú á skólajörðunum, sem ætlazt er til, að verkleg þekking breiðist frá út um sveitirnar. T. d. er bændum mjög nauðsynlegt að kynnast verkfæranotkun; hún hlýtur að fara mjög í vöxt á næstu árum, ef landbúnaðurinn á að halda áfram að eflast. En ég óttast, að hér fari eins og á sínum tíma fór við sjávarsíðuna, þegar byrjað var að nota mótorbátana. Á örfáum árum var keyptur mesti fjöldi af vélbátum, en vélarnar entust illa, af því það skorti hirðingu og nægilega þekkingu til að fara með þær, og upphaflega voru vélarnar valdar af þekkingarleysi og handahófi. Á líkan hátt er ég hræddur um, að geti farið fyrir bændum, þegar þeir eiga að fara að nota landbúnaðarvélarnar; þess vegna þarf að koma upp fyrirmyndarbúum, til að kenna þeim hina nýju starfsháttu og að hirða vélarnar. Að vísu er við og við skrifað um þetta efni, og ráðunautar Búnaðarfél. eiga að fara um og leiðbeina bændum, en það vill nú fljótt detta úr mönnum, sem þeir heyra á ára fresti. Þess vegna þurfa bændurnir að sjá fyrir sér, hvernig fyrirmyndarbúskapur er starfræktur.

Ég hefði viljað ganga lengra í þessu efni heldur en gert er ráð fyrir nú, en sætti mig við að hafa slíkan búrekstur í sambandi við búnaðarskólana, með það fyrir augum, að síðar verði aukið við og búum fjölgað.

Landbn. hefir borið fram sameiginlegar till. við frv., eins og menn sjá, þó nm. hafi talsvert mismunandi skoðanir á þessu máli, en ekki legg ég mikla áherzlu á sumar þeirra.