05.04.1930
Efri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

8. mál, bændaskóli

Fors- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég gerði ráð fyrir því við 2. umr. þessa máls, ef ég áliti þess þörf, að bera fram brtt. við 3. umr. um það, að veitt væri nægilega rúm heimild fyrir ríkisstj. til þess að við búnaðarskólana, sem starfræktir eru á kostnað hins opinbera, megi láta fram fara ýmislegar tilraunir, er snerta landbúnaðinn, í jarðrækt eða búfjárrækt. Ég ætlaði að koma á fund hjá hv. landbn., en tók því miður ekki rétt eftir um fundartíma hennar, svo að það fórst fyrir. Ég gat því aðeins talað við formann hennar, en hann áleit — og ég álít nú —, að með heimild þeirri, sem er í 2. gr. þessara laga, megi gera þetta; ef fallizt er á það álit, þá tel ég ekki þörf á að bera fram brtt., en í áðurnefndri gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar skulu fram fara hagnýtar tilraunir á ýmsum sviðum landbúnaðarins, svo sem fjarðrækt, kynbótum búfjár og öðru, er að búfjárrækt lýtur“.

Þessi heimild er ákaflega rúm, og finnst mér, að hér sé öllu fremur verið að skylda stj. til að láta gera það, sem í frv. stendur. Nú vil ég lýsa yfir þeirri skoðun minni um skilning á þessari gr., að stj. hafi heimild til að láta fara fram þær tilraunir, sem nauðsyn þykir til bera, í samráði við skólastjóra og Búnaðarfélag Íslands, þótt það kunni að kosta nokkurt fé.

Svo sem kunnugt er, gengur fjárpest mjög slæm um mikinn hluta lands, sérstaklega skæð í Borgarfirði, og hefir orðið að gera dýrar tilraunir við að ráða bót á henni. Einn af starfmönnum háskólans, Níels Dungal læknir, hefir tvisvar verið fenginn til að fara þangað upp eftir til að athuga veikina og reyna að finna ráð við henni. Þetta hefir orðið mjög kostnaðarsamt, enda orðið að kaupa talsvert af kindum til að gera tilraunir á.

Nú vil ég líta svo á, að eftir þessari gr. sé heimilt, ef með þarf, að gera tilraunir með lækningar á búpeningi undir kringumstæðum eins og þessum, og t. d. ef þarf að fá fé til að gera tilraunir á með bóluefni, eins og var í vetur, hefði verið miklu ódýrara fyrir ríkið að gera slíkar tilraunir á eigin búfé. En ég vil sem sagt telja, að það heyri undir það, sem í 2. gr. segir um búfjárrækt. Ég vildi mælast til þess, að ég af hálfu formanns hv. n. mætti fá að heyra, hvaða skilningur lagður er í þessi ákvæði 2. gr.