31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég þarf ekki margar mínútur að þessu sinni. Eldhúsumr. hafa nú staðið tvo daga á aðra viku, og hafa þær aldrei áður orðið svo langar. Eru engin dæmi slíkra málalenginga sem hér hafa orðið fyrir tilverknað hv. stjórnarandstæðinga. (JJós: Og hæstv. stj. sjálfrar. Ekki má gleyma henni!). Eftirtekjan fyrir þessa hv. þm. hefir ekki orðið í samræmi við þann mikla tíma, sem eytt hefir verið í umr. Það er þó auðvitað ekki mitt að dæma um það, en ég býst við, að sá verði dómur almennings. Og það er þegar farið að vekja óánægju hjá þjóðinni, að svo miklum tíma skuli hafa verið eytt í karp, sem vel mátti ljúka á miklu skemmri tíma, ef framkoma stjórnarandstæðinga hefði verið sæmileg. Það var ekki óviðeigandi af hv. 2. þm. G.-K. að enda með því að segja, að ég væri drykkjumaður, og að fyrir lægju sannanir um það. Þegar ég bað hann að leggja fram sannanirnar, svaraði hann aðeins með því að heimta, að ég kæmi með vottorð frá öllum flokksbræðrum mínum, sem eru mörg þúsund, um að þetta sé rangt hjá honum. Þessi er hugsunin hjá hv. þm., að bera fram í reiði allskonar ásakanir, og segja síðan, að sér komi ekki við að sanna mál sitt.

Sakborningurinn verði að fá vottorð um sakleysi sitt. — Nei, svona hlutir ganga ekki. Það er í sjálfu sér gott að hafa eldhúsdag. En viss atriði, einkum í framkomu eins eða tveggja af stjórnarandstæðingum, hljóta að spilla fyrir þeim flokki, sem telur sér slíka bardagaaðferð sæmilega.