08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

2. mál, fjáraukalög 1928

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

N. hefir athugað frv. þetta allrækilega og borið saman við landsreikninginn og aths. endurskoðenda. Þótt menn kunni að greina á um það, hvaða umframgreiðslur skuli teknar í fjáraukalög og hverjar ekki, hefir þó verið um það nokkurnveginn föst regla frá því árið 1920—21. Fjáraukalagafrv. 1920—21 var samið með nokkuð öðrum hætti en áður, en þingið 1923 gerði allverulegar breyt. á frv. Þingið hefir þannig sjálft sett reglur um það, hvaða umframgreiðslur yrðu teknar í aukafjárlög og hverjar ekki, og sér meiri hl. n. ekki ástæðu til, að óbreyttu formi fjáraukal., að breyta til í þessu efni, sérstaklega þegar svo stendur á, að umræddir liðir hafa áður verið felldir niður af fjáraukalagafrv. Meiri hl. vill þó ekki leggja til, að þeir verði felldir niður þegar svo stendur á, að samskonar umframgreiðslur hafa verið teknar í fjáraukalögin 1920—1921 og síðan. Meiri hl. n. vill sem sagt byggja á þeim reglum, sem settar voru með samþykkt „fjáraukalaganna miklu“ og síðan hefir haldizt, og eru brtt. meiri hl. í fullu samræmi við þessa stefnu hans.

1. brtt. meiri hl. er við 4. gr. frv. og miðar að því, að þau útgjöld, sem leiðir af bólusetningu, verði felld niður af frv. Þessi liður hefir aldrei verið tekinn upp nema á fjáraukalagafrv. 1920—21, en var felldur niður þegar frv. var samþ. á þinginu 1923.

Þá er önnur brtt. við 4. gr., um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma. Sá liður var tekinn upp í frv. 1921, en fellur niður áður en frv. var samþ., og sér n. ekki frekar nú ástæðu til að taka hann upp. Sama er svo að segja um þær umframgreiðslur, sem leiðir af vörnum gegn kynsjúkdómum, að þær hafa ekki verið teknar upp í frv. frá því 1923, og sér n. ekki ástæðu til að breyta út frá þeirri reglu.

Þá kem ég að umframgreiðslum til sýsluvegasjóða, en sá liður virðist tekinn upp í frv. algerlega að ástæðulausu, því að stj. hefir ekkert íhlutunarvald um það, hvað mikið fer til þessara framkvæmda, heldur verður hún að greiða samkv. gildandi lögum hluta ríkissjóðs, og fer hann auðvitað eftir því, hve mikilvirk hlutaðeigandi sýslufélög eru.

Þá koma gjöld samkv. jarðræktarlögunum, sem stj. hefir í rauninni ekkert yfir að segja, því að þau eru ákveðin í jarðræktarlögunum, og ber henni aðeins skylda til að borga styrkinn út.

Þá kemur síðast sá liður, sem lýtur að vörnum gegn berklaveiki. Sá liður var ekki heldur tekinn upp í frv. 1920—21 né síðan, en þó er alls búið að greiða á þessum árum 1½ millj. til berklavarna umfram áætlun og aldrei leitað aukafjárveitingar fyrir því, svo að engin ástæða virðist til að gera það frekar nú.

Ég vil taka það fram, að þó meiri hl. n. hafi tekið þá stefnu að fylgja þessu formi á fjáraukalögunum, þá dylst honum ekki, að á þeim eru ýms handahófs einkenni. Það, sem fært er undir liðinn „greiðslur samkv. sérstökum lögum“, er sumt þess eðlis, að það ætti að standa í fjáraukalögum, t. d. greiðslur vegna ábyrgða o. fl., en hefir þó aldrei verið gert.

Um þetta þarf ég svo ekki að fjölyrða frekar, en vil aðeins víkja nokkrum orðum að því, sem nál. tekur fram, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp yfirlitið, sem þar er prentað:

Niðurstöðutala rekstrarreiknings er

kr.

14.255.749,74

Gjöld samkv. áætlun fjárlaga

—

10.453.877,97

Mismunur kr.

3.801.871,77

Sjóðaukning hefir orðið á árinu

kr. 1.070.777,90

Lausar skuldir hafa lækkað

— 14.831,22

Samningsskuldir lækkað umfr. áætlun

— 53.713,01

kr. 1.139.322,13

Endurgreidd lán

kr. 37.920,46

Eytt af innstæðu

—116.053,25

— 153.973,71

kr. 985.348,42

Raunverulega hafa þá gjöldin farið fram úr áætlun um

kr. 2.816.523.35

Samkv. frv. er leitað aukafjárveitingar fyrir

kr. 1.822.089,15

Nefndin leggur til, að þessi upphæð verði lækkuð um

kr. 569.142,66

kr. 1.252.946,49

Greitt er samkv. sérstökum lögum og fjáraukal.

— 922.481,23

kr. 2.175.427,72

Hafa þá gjöldin farið fram úr áætlun um

kr. 641.095,63

á þeim liðum, sem taldir eru lögboðin gjöld, en þó má segja, að gjöldin hafi í rauninni meira farið fram úr áætlun, þegar þess er gætt, að sumir liðirnir hafa ekki náð henni. Þetta verður hinsvegar ekki sýnt nema með því einu að fara í gegnum landsreikninginn og bera saman við áætlunina hina einstöku liði.

Ég vil svo að lokum skjóta því til stj. til athugunar, hvort ekki mundi heppilegt að breyta til um form fjáraukalaga, þannig að fullkomið yfirlit fáist um allar frávikningar frá einstökum liðum fjárlaganna, eins og tíðkast mun hjá nágrannaþjóðum vorum.