09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

2. mál, fjáraukalög 1928

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Eftir að hv. 1. þm. Skagf. hefir nú talað, hefi ég ekki ástæðu til að bæta miklu við það, sem ég hefi tekið fram áður. Ég vil aðeins minna hæstv. fjmrh. á það, að í fyrstu ræðu minni, þar sem ég minntist á 37. gr. stjskr., tók ég fram, að ekki mætti skilja þessi ákvæði allt of bókstaflega. Það er vitanlegt, að hvað eftir annað hafa verið greidd ýmis gjöld án þess að heimild væri fyrir því í fjárlögum eða fjáraukalögum. En ég benti t. d. á eitt dæmi, sem gert er ráð fyrir í þingsköpum, að megi samþ. till., sem hafi fjárútlát í för með sér, með því að hafa tvær umr. um þáltill. En þótt gert sé ráð fyrir þessu, þýðir samþykkt þáltill. aðeins yfirlýsingu til stj. um, að hún verði ekki átalin af þinginu, þótt hún greiði það fé, sem ákveðið er í þáltill. En ákvæði stjskr., að leita heimildar á eftir í fjárlögum eða fjáraukal., standa föst samt sem áður. Ég hefi aðeins sagt, að þessi regla, sem minni hl. hefir komið fram með og hv. meiri hl. hefir fallizt á, eigi sína stoð í 37. gr. stjskr., og frá því verður ekki vikið.

Ég verð að segja það, að þau svör, sem hæstv. fjmrh. gaf hv. 1. þm. Skagf. og mér um, hvernig hann mundi haga sér í framtíðinni með samningu fjáraukalaganna, voru mjög ófullnægjandi. Hann sagði, að hann mundi fara eftir því, hvað yrði ofan á hér í hv. d.; hann mundi fara eftir atkvgr. um, hvaða reglu hann ætlaði að fylgja framvegis. En sannleikurinn er sá, að hvað sem verður ofan á, hvort sem frv. verður samþ. eins og hæstv. stj. hefir lagt til eða brtt. hv. þm. V.-Húnv. ná samþykki, þá er með þeirri atkvgr. ekkert sagt um, hvaða regla eigi að gilda í framtíðinni, því bæði meiri og minni hl. hugsa sér að afgreiða fjáraukalagafrv. án þess að láta þær reglur, sem þeir vilja að farið verði eftir í framtíðinni, hafa nokkur áhrif. Svo að þetta svar hæstv. fjmrh., að hann fari eftir atkvgr., er því alveg út í loftið.

Ég tek því undir með hv. 1. þm. Skagf. um það, að ég vona, að meiri hl. hér í d. standi saman með okkur um að flytja þáltill., þar sem stj. sé fyrirskipað, hvernig hún á að haga þessu máli framvegis, svo framarlega sem stj. ekki vill fallast á till. okkar.

Annars er eðlilegast, að stj. gefi svör við þessu nú og segi; hvað hún ætlar að gera í framtíðinni. Við minnihlutamenn höfum flutt þessar till. alveg áreitnislaust og aðeins hugsað um að innleiða þær reglur, er beztar mættu verða.

Get ég svo lokið máli mínu. Þessar umr. hafa ekki orðið til einskis, því að mér skilst, að búið sé að slá því föstu, að stj. verði framvegis að skoða sig bundna við hina föstu liði fjárl., og ég skildi hæstv. fjmrh. svo, að hann féllist á þá skoðun mína.