08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

3. mál, landsreikningar 1928

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Ég hefi lítið að segja, annað en það, sem stendur í nál. (MT: Guði sé lof!). Ég skal þó rifja upp aðalatriðið í nál., sem er aths. endurskoðenda undir 3. lið, um ósamræmið milli reikninga Landsbankans og ríkissjóðs og sem n. telur stj. ekki hafa svarað til fullnustu. En höfuðatriði þeirrar aths. er þetta:

Í landsreikningnum er talið til eignar kr. 1.500.000,00 innskotsfé ríkissjóðs í Landsbankann, samkv. l. nr. 50 1913. Þessa upphæð hefir Landsbankinn nú afskrifað. Virðist nefndinni því ekki rétt að telja þessa upphæð, eins og stendur, með eignum ríkissjóðs, en viðurkennir hinsvegar, að líkur séu til, að Landsbankinn muni af aflafé sínu geta safnað þessu stofnfé, og þykir því rétt, að krafan um þessa upphæð sé færð innanstriks í skýrslunni um eignir og skuldir ríkissjóðs og sé ekki talin sem eign á annan eða meiri hátt en reikningar Landsbankans bera, með sér, að til sé fyrir þessari kröfu á hverjum tíma, sbr. aths. landsbankanefndar við reikning 1928, sem er prentaður undir 3. lið í svari ríkisstjórnar.

Telur nefndin, að við svo búið megi standa að þessu sinni, en framvegis beri að fara eftir tillögum nefndarinnar um færslu á þessum lið reikningsins.

N. þótti ekki ástæða til að fara að breyta þessu nú, en ætlast hinsvegar til, að stj. hagi svo færslu þessa liðar í framtíðinni, sem hér er stungið upp á. Geri ég ekki ráð fyrir, að hæstv. stj. geti haft nokkuð við það að athuga.

Þá vildi ég benda á það fyrir hönd n., að í skýrslu um eignir og skuldir ríkisins 31. des. 1928 er undir 13. lið skuldamegin enska lánið 1921, £ 119,582—4—5, talið í íslenzkum kr. 2.523.184,95, og er pundið þá reiknað. á kr. 21.10. Þar sem pundið hefir nú lengi staðið fast í kr. 22.15 og væntanlega má treysta því, að gengið fari ekki niður fyrir þá upphæð, telur n. rétt, að framvegis verði hið raunverulega gengi pundsins lagt til grundvallar við færslu þessa liðs. Hefir þetta þau áhrif á niðurstöðuna, að mismunurinn á eignum og skuldum verður minni, svo sem hann í raun og veru er. En það gegnir sama máli um þetta atriði sem hið fyrra, að n. sá ekki ástæðu til að fara að koma með till. til breyt. á færslu þessa liðar nú, en mælist til þess, að hæstv. stj. taki það til athugunar í framtíðinni.

Fleira sé ég ekki ástæðu til að taka fram að svo komnu.