08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

3. mál, landsreikningar 1928

Magnús Guðmundsson:

Mér finnst það næsta einkennilegt, að hæstv. fjmrh. skuli líta svo á, að rétt sé að færa þessa 1½ millj. sem eign á landsreikningnum, enda þótt upphæðin sjáist hvergi og sé ekki talin meðal skulda Landsbankans á reikningi bankans. Ég fæ ekki annað séð en að það sé algerlega villandi að færa þetta sem eign eins og stendur. Hinsvegar er ekki nema sjálfsagt, að þetta sé fært sem eign jafnóðum og bankinn safnar þessu fé fyrir, eins og gera má ráð fyrir, að verði. Hitt læt ég mig engu skipta, hvort þetta verður fært utanstriks eða innan, en það er deginum ljósara, að ekki er rétt að færa þessa upphæð sem eign, svo lengi sem hún er ekki til.

Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., að eins og þetta liggur nú fyrir, kemur ekki fram nein yfirlýsing frá þessari deild um það, hvernig þessari færslu skuli hagað í framtíðinni, en hinsvegar verð ég að líta svo á, að deildin fallist á till. n. um það, hvernig þessu skuli haga, ef ekki koma fram nein andmæli gegn þeim.

Ég vil leyfa mér að leiða athygli að því, að meðal óvissra tekna á árinu 1928 eru taldar 1.000 kr. fyrir björgun m/b „Erik“ frá Keflavík, sem „Þór“ bjargaði úr sjávarháska. Er auðséð af þessu, að hæstv. stj. lítur svo á, að þá einungis eigi ekki að taka björgunarlaun af hálfu varðskipanna, þegar um erlend skip er að ræða. Fæ ég ekki skilið, af hverju útlendingar eiga að hafa betri rétt í þessum efnum en við Íslendingar sjálfir. Er þess skemmst að minnast, hvílíkt veður var gert út af því, þegar tekin voru björgunarlaun fyrir björgun á enska togaranum „Ohm“. Þá var það talið óhæfilegt af varðskipum að taka björgunarlaun, en eftir þessu virðist sem taka eigi björgunarlaun fyrir varðskipin, þegar innlendir menn eiga í hlut. Útlendingar eiga aftur á móti að sleppa. Er þetta í senn einkennileg og óverjandi regla.

Þá er þess að geta, að greiddar hafa verið kr. 6.332,20 fyrir uppihald gæzlufanga á sjúkrahúsinu í Hafnarfirði. Eftir svari stj. að dæma við aths. yfirskoðunarmanna um þennan lið, var hér ekki um gæzlufanga að ræða, enda gat svo tæplega verið, heldur um fanga, sem látnir voru taka út hegningu á sjúkrahúsi í Hafnarfirði. Geri ég ráð fyrir, að þessir fangar hafi ekki þolað að taka út hegningu hér í Reykjavík heilsu sinnar vegna, en ég býst hinsvegar við, að mörgum muni finnast heldur lítil refsing í því að leggja þá inn á sjúkrahús og láta þá búa þar við venjulega sjúkrafæðu, enda þótt maður á háum launum hafi verið hafður til að gæta þeirra.

Þá hafa Guðmundi Hlíðdal verið greiddar kr. 3.750,00 fyrir árin 1925, 1926 og 1927, og er það haft að ástæðu, að hann hafi orðið að aðstoða og gegna störfum landssímastjóra í veikindum hans. Þessi embættismaður átti enga kröfu á þessari greiðslu, því að samkv. launalögunum er hver embættismaður skyldur til að gegna embætti yfirboðara síns í forföllum hans, endurgjaldslaust. Hér er því um hreina ívilnun eða bitling að ræða, því að stj. brast með öllu heimild til að greiða þessa upphæð.

Þá er að minnast á utanfararstyrkina. Þeir eru nú farnir að tíðkast allmikið, og sumir nokkuð háir. Utanfararstyrkir tilfærðir í 15. og 19. gr. eru þannig til samans kr. 25,099,00, eða meira en 4 sinnum meira en áætlað er í 15. gr. Auk þess eru ýmsir utanfararstyrkir taldir hingað og þangað um landsreikninginn, sennilega til þess, að minna beri á þeim. Þannig eru skipherranum á Ægi greiddar tæplega kr. 8.000,00 til utanfarar. Ég hygg, að þessir utanfararstyrkir, sem hæstv. stj. hefir greitt á árinu 1928, muni allt í allt ekki vera mikið undir 50 þús. kr., og þar sem ekki voru veittar nema 6.000 kr. í þessu skyni, virðist sem hæstv. stj. hafi látið sér í léttu rúmi liggja vilja Alþingis í þessu efni.

Ýmsar fleiri greiðslur væri ástæði til að minnast á, en þó skal ég ekki fara langt út í það. Ég skal aðeins nefna það, að til rekstrar Staðarfellsskólans hafa verið greiddar 1.000 kr., og er þessi greiðsla tilfærð í óvissum gjöldum, en ekki á kontó skólans, eins og vera ætti. Auk þess hefir skóla þessum verið greitt meira en tvöföld áætlun þingsins samkv. 14. gr.

Yfirskoðunarmenn gerðu aths. um það, hversu mikil skuld viðlagasjóðs væri við ríkissjóðinn. Nam hún í árslok 1928 kr. 355.718,69. Í svari stj. við þessari aths. segir svo, að viðlagasjóður hafi greitt ríkissjóði alla skuld sína á árinu 1929. Hlýtur þessi greiðsla að hafa farið fram eftir að endurskoðuninni lauk, en það var ekki fyrr en í desember 1929. Er mér það gleðiefni, að þessu er svo varið, þó að ég skilji ekki, hvaðan viðlagasjóði hafa komið peningar til þess að greiða þessa skuld, því að ég stend í þeirri meiningu, að sjóðurinn hafi á þessum tíma ekkert fé haft, vegna þess hve mikið hafði verið lánað úr honum. Sjálfsagt liggur eitthvað á bak við í þessu, sem ég veit ekki um, og vænti ég því, að hæstv. ráðh. upplýsi það.

Þá vil ég minnast á eitt atriði, þó að það komi stj. ekki beinlínis við. Á reikningi Alþingis fyrir árið 1928 eru tilfærðar 700 kr., greiddar Karli Einarssyni fyrrv. bæjarfógeta, fyrir aðstoð við forseta. Yfirskoðunarmenn spurðust fyrir um það, hvernig í þessari greiðslu lægi, en ekkert svar barst um það. Þó að hér sé um litla upphæð að ræða, er viðkunnanlegra að vita, hvað tal hennar hefir verið unnið. Vænti ég þess því, að þeir forsetar, sem hér eiga hlut að máli, svari til þessa. (MJ: Þetta er sennilega kostnaður í sambandi við „Sigríði sálugu“). Nei, hún kemur ekki til sögunnar fyrr en 1929.

Þó að það kunni að þykja smámunir, get ég ekki hlaupið yfir það, að í kostnaði við sambandslaganefndina eru taldar kr. 1.098,50 fyrir að flytja n. upp í Borgarfjörð og sjá henni og skipshöfninni á „Óðni“ fyrir bifreiðarferðum þar um héraðið. Virðist allur þessi kostnaður ekki geta átt heima á þessum lið, heldur annarsstaðar a. m. k. að því er snertir útgjöld í sambandi við skipshöfnina á „Óðni“. Þau hefðu að sjálfsögðu átt að færast á reikning varðskipanna.