08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

3. mál, landsreikningar 1928

Magnús Jónsson:

Ég hafði hugsað mér að hreyfa nokkrum aths. í sambandi við þessar aths. endurskoðunarmanna, en hv. 1. þm. Skagf., sem er yfirskoðunarmaður, hefir gert það, svo að ég mun ekki hreyfa því frekar, því að hv. þm. hefir minnzt á allt það, sem ég ætlaði að tala um.

En ég vildi segja nokkur orð viðvíkjandi þessari aths. endurskoðenda um innskotsfé Landsbankans og hvernig eigi að færa það. Ég get ekki verið þeim samdóma um það, að þetta eigi að vera á reikningnum, þar sem því er yfirlýst hér, að ekki sé um eign að ræða. Úr því að um efnahagsreikning er að ræða, er ekkert við það að athuga, þótt einn liður hverfi, alveg eins og skuld, sem greidd er, hverfur af efnahagsreikningi. Hitt er annað mál, að náttúrlega á, eftir réttum reikningsfærslureglum, að vera hægt að sjá það í bókfærslu hvers firma, hvernig hagur þess er, og alveg eins og skuld hverfur, eins á þetta að koma fram á landsreikningnum, t. d. við afborgun skuldar og framlags til Landsbankans, þar hefði verið sett niður það, sem beinlínis væri afskrift á efnahagshlið reikningsins. Hitt er rangt, að telja upphæðina sem eign, ef hún er alveg töpuð.

Hinsvegar er það, að þó að möguleikar séu til, að Landsbankinn safni þessu fé aftur, þá verður ekkert annað en að það kemur þá inn á efnahagsreikning jafnóðum og þá inn á reikning Landsbankans. Þessi jafnaðarhagsskýrsla er ekkert annað en til fróðleiks, og því ekki ástæða til að flytja þáltill. um þetta, en fyrir mitt leyti vil ég beina því til hæstv. stj., að hætta að telja þetta á efnahagsreikningi, en ef hún vili hafa bókfærslu sína í góðu lagi, þá væri rétt að láta það koma fram, að þetta innskotsfé væri afskrifað, ef menn ekki teldu nóg að hafa sem fylgiskjal reikning Landsbankans.