08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

3. mál, landsreikningar 1928

Hákon Kristófersson:

Ég tók eftir því áðan, að hv. þm. Skagf. hreyfði ýmsum aths. við þetta mál, en hinsvegar saknaði ég þess mjög, að hæstv. stj. svaraði þessu engu. Þar af leiðandi finnst mér ástæða til að spyrja: Er það meining hæstv. stj., að hún vilji ekki láta þm. í té upplýsingar um þau atriði, er þeim virðist ástæða til að spyrja um, eins og t. d. af hverju ýmsar fjárgreiðslur hafa verið greiddar án allrar heimildar? Ég skal í þessu sambandi leyfa mér að nefna örfá dæmi, bæði af þeim, sem hv. 1. þm. Skagf, tók fram, auk nokkurra annara. Er þá fyrst að nefna Staðarfellsskólann og aðstoð til forseta Alþingis, sem hr. Karli Einarssyni er greitt fyrir, og þessi mjög svo myndarlega en einkennilega kaupgreiðsla til hr. Guðm. Hlíðdals. Ég fyrir mitt leyti veit ekkert um þær brýnu ástæður fyrir þessu, og þess vegna víti ég það, að hæstv. stj. vill ekki svara fyrirspurnum þingmanna, er þeim virðist ástæða til að fá upplýstar. (Fjmrh.: Stjórnin hefir ekkert með þingkostnað að gera). Nei, látum svo vera, en hefir hún þá ekkert með Staðarfellsskólann að gera, eða aðrar þær greiðslur, sem um hefir verið talað og undrun sæta? En það er skóli, sem séð er, að er ekki eins mikils virði og hann var talinn, þegar var verið að stofnsetja hann. (SE: Þetta er ekki rétt). Hv. þm. talar hér um mál, sem hann er vegna aðstöðu sinnar ekki fullbær að dæma um, — eða á ég að fara að lesa upp hina stuttu æfisögu skólans, æfisögu, sem því miður er ekki sem glæsilegust, og sýna fram á, til hvers gagns hann hefir orðið landi og lýð með hliðsjón af búrekstrinum? Það hefir verið varið talsverðu fé, já mörgum þúsundum, þar til gripakaupa, en hvað er orðið af þeim fénaði, sem keyptur hefir verið til skólabúsins? Ég veit ekki, hvort enzt hefir tími til að éta hann allan upp síðan síðastl. haust, þegar það sýndi sig, að þeir, sem fóru með þennan búskap, voru alls ófærir til þess. Nei, hv. þm. Dal. ætti að kynna sér það hörmulega ástand, sem þar hefir ríkt og ríkir, áður en hann fer að hnekkja nokkuð mínum ummælum. Og svo er eitt enn, að ekki fæst nokkur mannskepna til að vera þar, nema einn unglingur, sem er hafður til að annast hin nauðsynlegustu heimilisverk og til að hirða þessar tuttugu kindur, eða rúmlega það, sem ekki vannst tími til að selja eða éta upp á síðastl. hausti. — En þetta eru ekki mín orð, ég er hér að skýra frá orðum reynslunnar, og það er enn óskýrt frá mjög miklu, sem reynslan segir um þetta mál, t. d. að nú er svo komið, að þessi ágæta jörð, sem skólinn er á, er nú óbyggð. Það var víst í gær, sem hæstv. ráðh. skýrði frá því, að nú hefði stj. lánazt að byggja hana aftur einhverjum, en þess þurfti náttúrlega, af því að skólastýran, sem hafði fengið hana til ábúðar, flosnaði upp, eftir að hafa búið þar 1—2 ár — og svo var því lokið. Þetta er sú sorglega reynsla um þetta fyrirtæki, og vitanlega hefði ég ekki farið að kvarta yfir þessu fyrir mitt leyti, en úr því að þetta ber á góma á annað borð, þá þykir mér hlýða að geta þess, að þarna hefir ræzt minn spádómur gersamlega. Ég finn mig, úr því sem komið er, skyldan til að segja frá þessu viðvíkjandi Staðarfellsskólanum, en ég hefði þó ekki gert það, ef hv. þm. Dal. hefði ekki tekið svo óstinnt upp fyrir mér það, sem ég sagði, sem vitanlega stafar algerlega af ókunnugleika hv. þm.

Það er svo margt, sem maður gæti upplýst í þessu máli, en þar sem ég veit, hvernig mínar upplýsingar myndu verða, þá veit ég líka, að hv. þm. Dal. kærir sig ekkert um þær, og þess vegna ætla ég ekki að gera það, nema ég verði neyddur til. Annars hygg ég, að okkur entist ekki dagurinn til, ef við færum að lýsa þeirri óhamingju, sem okkur henti, þegar umsjón Staðarfellsjarðar og skólans var falið þeim, sem nú hefir hana. Við andstæðingar þess máls vorum bornir brigzlum fyrir okkar framkomu í málinu, en sannleikurinn lætur ekki að, sér hæða, hann kemur upp, þótt síðar verði og þótt honum sé hægt að þrykkja niður um sinn. (Forseti: Það væri æskilegt, að menn blönduðu ekki Staðarfellsskálanum meira inn í þetta mál en nauðsyn krefur). Þetta var aðeins af brýnni nauðsyn. — Ég var til þess knúður, af því að talið barst að þessari jörð.