08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

3. mál, landsreikningar 1928

Magnús Guðmundsson:

Mér datt ekki í hug að drótta neinu persónulegu að hæstv. fjmrh. fyrir þessar greiðslur. Ég veit, að hann var ekki fjmrh. 1928. Ég skal ekki koma með harðar ásakanir að þessu sinni, enda ræður hæstv. stj., hvort hún svarar nokkru eða engu; mér liggur það í léttu rúmi. Ég vil aðeins benda á, að ef hæstv. stj. vill fá lán erlendis og útlendingar reka sig á ósamræmi milli hagskýrslna hér á landi, milli landsreikninganna og Landsbankareikninganna, og sjá, að ekki geti hvorttveggja verið rétt, þá getur það komið sér illa, Allir sjá, að annaðhvort er þetta innskotsfé tapað eða ekki tapað. Ég vil aðeins, að þetta sé nefnt í efnahagsskýrslunni til þess að minna á, að þegar Landsbankanum safnast fé, komi krafa ríkissjóðs til greina. Það er algengt að tilfæra þannig í efnahagsreikningi svona vafaskuldir.

Þá upplýsti hæstv. ráðh., að viðlagasjóður hefði tekið lán. En hann vildi ekki segja hvar. Ég skil ekki, að það geti verið launungarmál, Ég veit ekki til, að stj. hafi heimild til að taka lán fyrir hönd sjóðsins. Ef svo væri, að þetta lán væri bara tekið hjá ríkissjóði sjálfum, þá er það ekkert annað en fyrirsláttur, að þessi skuld sé greidd. Eða kannske lánið sé tekið hjá Búnaðarbankanum. Ég nenni ekki að heimta frekari svör, því að auðvitað get ég sem yfirskoðunarmaður fengið að vita það hvenær sem er, hvenær og hvernig þessi skuld er greidd. En því minni ástæða sýnist fyrir hæstv. fjmrh. að færast undan að svara strax. Þetta getur eftir eðli sínu ekki verið neitt launungarmál, af allt er með felldu. Og auðvitað á þingið heimtingu á að fá að vita um þetta.

Þessi skuld viðlagasjóðs hefir auðvitað safnazt vegna þess, að hæstv. stj. hefir lánað meira en til var í sjóðnum og tekið það fé úr ríkissjóði. Það hefir kannske verið gert fyrr, en aldrei nema til bráðabirgða.