12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

1. mál, fjárlög 1931

Ólafur Thors:

Við þennan kafla fjárlaganna á ég aðeins eina litla brtt. Það er brtt. við brtt. fjvn. á þskj. 229, og fer fram á það, að fjárfúlga sú, sem n. stingur upp á að verði veitt til bryggjugerða og lendingarbóta, verði hækkuð úr 91.000 kr. upp í 97.000 kr. og þær 6.000 kr., sem hækkunin nemur, renni til bryggjugerðar og lendingarbóta í Grindavík, gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar að.

Ástæðan til þess, að ég flyt þessa brtt. er sú, að síðasta Alþingi barst umsókn frá Einari G. Einarssyni í Grindavík um það, að honum yrði veittur 10.000 kr. styrkur til þess að standast hálfan kostnað við að byggja þessa bryggju. Fjvn. tók ekki þessa beiðni til greina og hefir tjáð mér, að það hafi verið nokkuð vegna minna afskipta af málinu. En mín afskipti voru þau, að aðspurður skýrði ég frá því, að Grindvíkingar hefðu á fundi samþykkt að fara þess á leit, að úr ríkissjóði yrði veittur fjárstyrkur til bryggjugerðar hjá þeim, en ekki á sama stað og Einar G. Einarsson hefði beðið um, heldur í Þórkötlustaðahverfinu.

Nú er liðið eitt ár síðan ég gaf fjvn. þessar upplýsingar og Einar G. Einarsson hefir flutt beiðni sína á ný, og enn hefir ekki borizt frá Grindvíkingum nein beiðni um bryggjugerð á öðrum stað en Einar nefnir.

Fjvn. spurði mig, hver væri hugur Grindvíkinga í þessu máli, og varð það að samkomulagi milli hv. n. og mín, að ég skyldi spyrja hlutaðeigendur — en það er fyrst og fremst formannafélagið í Grindavík og aðrir áhugasamir menn þar, — hvernig málið stæði frá þeirra hendi og hverra athafna þeir óskuðu frá minni hendi og hverrar fjárveitingar úr ríkissjóði. Þessari fyrirspurn beindi ég til hlutaðeigenda og fékk þau svör, að þótt þeim þætti lendingarbætur í Þórkötlustaðahverfi nauðsynlegri, en Einar hefði beðið um styrk til framkvæmda í Járngerðarstaðahverfi, er væri meira til daglegra hagsbóta, þá væri það svo, að athuganir í Þórkötlustaðahverfi væru ekki lengra komnar en það, að allt yrði að bíða fyrst um sinn. Af þessum ástæðum töldu þeir, að óskir Einars yrðu að skoðast sem vilji Grindvíkinga yfirleitt. Þegar málið lá þannig, þótt mér sjálfsagt að flytja þessa ósk þeirra fram á Alþingi, og býst ég við að gera það að nokkru leyti í samráði við hv. fjvn., og vænti þess, að undirtektir hennar verði ekki verri við þessa málaleitun heldur en við aðrar svipaðar beiðnir, sem henni hafa borizt og hún hefir afgr. á þann hátt, að ríkissjóður legði fram 1/3 kostnaðar við bryggjugerðir eða lendingarbætur, svo að af þeim geti orðið.

Ég skal svo aðeins gefa örstutta skýringu á, hvernig bagar til þarna syðra. — Eins og margir hv. þdm. munu vita, er lending í Grindavík ákaflega vond; Grindavík er opin fyrir hafinu og lendingin er aðeins brimsorfnir klettar og frá ómunatíð hefir ekkert verið aðhafzt til að bæta hana, mest vegna þess, að brimgangurinn er svo ógurlegur þar syðra, að allar málamyndabætur eyðileggjast þegar í stað, en að gera nokkuð til frambúðar, hafa Grindvíkingar ekki séð sér fær að ráðast í af eigin rammleik. En fyrir það, að engar hafnarbætur hafa verið gerðar, hagar enn svo til í Grindavík, sem ekki mun vera títt hér á landi, að það verður að bera á bakinu allan aflann frá sjávarmáli og upp á land. Hinsvegar er það að segja um útræði frá Grindavík, að afli hefir verið þar prýðisgóður, en sú breyting hefir orðið þar á starfsaðferð þeirra á síðustu árum, að í stað þess, að menn reru áður á venjulegum árabátum, hafa nú verið settir smáhreyflar í bátana. Afleiðingin hefir orðið sú, að aflinn hefir aukizt, en aftur á móti hefir skipshöfnin minnkað, svo að færri hendur eru til starfa þegar að landi kemur, því að hreyflarnir hafa komið í stað mannsaflsins.

Af þessu leiðir auðvitað það, eins og ég sagði áður, að færri hendur eru til að vinna, þegar að landi kemur, um leið og aflinn hefir aukizt, og fyrir þetta er nú þörfin á bryggjugerð þar orðin svo brýn, að Grindvíkingar telja það hina mestu nauðsyn að gera þessa bryggju Einars G. Einarssonar.

Málið liggur þá þannig fyrir, eins og ég hefi nú frá skýrt. Fjárveitingin, sem farið er fram á, er mjög lítil og hliðstæð við aðrar fjárveitingar hv. n., og ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að hv. fjvn. myndi sjálf hafa borið fram þessa fjárveitingu, ef ekki hefði staðið á svari frá Grindvíkingum. Ég vona, að hv. d. sjái sér fært að samþykkja þessa till., ekki sízt vegna þess, að ríkissjóður hefir miklar tekjur af útræði í Grindavík.

Ég vil geta þess, að Einar G. Einarsson hefir farið fram á 10.000 kr. styrk, en ég hefi ekki séð mér fært að fara fram á meira en 6000 kr., og það einmitt til þess að vera í samræmi við stefnu fjvn. í málinu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hefja neinar almennar umr. um afgreiðslu fjárl. eða einstakar brtt., sem bornar hafa verið fram hér, en get aðeins tekið undir það, sem komið hefir fram í umr., að vald ríkisstj. í fjármálum er farið að verða nokkuð mikið, frá mínu sjónarmiði allt of mikið, enda þótt því væri betur beitt en raun hefir á orðið um hæstv. stjórn.