08.04.1930
Neðri deild: 74. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

3. mál, landsreikningar 1928

Ólafur Thors:

Ég sé, að þótt ég hafi reynt að senda skörpustu geislana, hafa þeir ekki náð inn að heila hv. 1. þm. Reykv. Það er einhver þoka þar í dag, en ég vona, að hún hjaðni, þegar fer að líða á kvöldið. Hv. þm. vildi helzt fella þessa upphæð alveg niður af landsreikningi. En sé skuldin strikuð út þar, er hún þar með gefin eftir. (BÁ: En krónan?). Jú, „krónuaðferðin“ kom á eftir hjá hv. þm., og skal ég minnast á hana rétt strax. — Það er alveg ástæðulaust að gefa Landsbankanum eftir þessa hálfa aðra miljón króna. Ef bankinn vinnur sig upp, þá á ríkissjóður þessa upphæð hjá honum. (MJ: Ríkissjóður á bankann). Það er nú vafamál, — líklega á bankinn sig einna helzt sjálfur.

Hv. þm. hélt, að það væri eitthvert ósköp gott form að færa skuldina til eignar í landsreikningi með í krónu. Þetta álit ég á engan hátt til bóta frá því, sem fjhn, leggur til. Það er ógreinilegra og hefir auk þess þann galla, að það fullnægir ekki þeirri grundvallarkröfu, sem hv. þm. sjálfur gerði, að koma á samræmi milli reikninga Landsbankans og landsreiknings. Það munar þá alltaf þessari einu krónu.

Ég verð að játa, að ég tel það beinlínis falskan reikning, að bókfæra þessa skuld með fullu verði. Hinsvegar er ég engan veginn eins viss um það og hv. 1. þm. Reykv., að skuldin sé einskis verð; — ég held ég vildi t. d. gjarnan kaupa hana á 100 þús. kr., og það er þó alltaf eitthvað. En allt, sem hv. 1. þm. Reykv. hefir sagt um þetta mál í dag, er kláravitleysa, sem stafar af einhverri þoku, sem nú liggur yfir skynseminni hjá honum, þoku, sem er að vísu sjaldgæf hjá þessum hv. þm., en sýnist þeim mun svartari, þegar hún kemur. (MJ: Ég bið skrifarana að bóka, að hv. þm. segi tómt bull !).