09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

361. mál, fjáraukalög 1929

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég get að mestu vísað til nál. og brtt. n. og get því verið stuttorður.

Á 3. lið 3. gr. eru færðar 7.000 kr. til viðgerðar á húsinu í Kirkjustr. 12. Húsameistari hefir upplýst, að viðgerðin hafi kostað 8.900 kr. Eftir þessu að dæma virðist ekki vanþörf á því, að ríkið hafi nokkurt eftirlit með þeim viðgerðum, sem það lætur framkvæma á sinn kostnað. Það sætir næstum undrum, hvernig hægt hefir verið að koma þessari upphæð fyrir í þessari viðgerð. Fyrir þetta fé mætti byggja sæmilegt íbúðarhús í sveit.

Á 4. gr. eru færðar um 25 þús. kr. til umbóta og breyt. á pósthúsinu á Ísafirði. Kostnaðurinn hefir þó orðið um 60 þús. kr. Annars er útlit fyrir að þetta sé góð eign, sem renti sig vel.

Á 2. 1ið 5. gr. eru færðar 3.000 kr. til viðgerðar íbúðarhússins á Vallanesi. Húsameistari hefir gefið þær upplýsingar, að kostnaður við þessa aðgerð hafi orðið 7.000 kr.

Á 6. lið eru færðar 26 þús. kr. til aðgerða og breytinga á Menntaskólanum. Húsameistari segir, að þessi upphæð hafi farið upp í 31 þús. Hefir þá alls verið varið þar 46 þús. kr. til endurbóta. Í fjáraukalögum fyrir árið 1926 er skýrt frá, til hvers 15 þús. hafi verið varið. Fjárveitingunni í þessum fjáraukalögum hefir verið varið til að lagfæra bókasafnshúsið Íþöku og innrétta heimavistir. Þá hefir verið varið 10 þús. kr. til aðgerðar skólahúsinu á Eiðum. Af þessari upphæð hefir ekki verið eytt nema 7.000 kr. Hitt liggur í sjóði.

Um framlagið til Hvanneyrarskólans er það upplýst, að nokkuð af því hefir gengið til húsabóta, en mikill hluti þó til að launa verkstjórum. Fjvn. lét svo um mælt á síðasta þingi, að hún teldi þetta ekki rétt. Piltar nytu sérstaks styrks við verklegt nám, svo að skólastjóri fengi vinnu þeirra fyrir ekkert. Þetta er alveg hliðstætt því, þegar Búnaðarfélagið styrkir pilta, sem einstakir bændur taka í sína þjónustu. N. álítur, að skólastjórinn geti séð þeim fyrir verkstjóra á sama hátt og bændurnir. Verður hún því að finna að þessari fjárveitingu.

Þá er styrkur til rekstrar Laugarvatnsskóla, 3.000 kr. Þessi kostnaður stóð ekki í fjárlögunum fyrsta árið, sem skólinn starfaði.

Til Laugaskóla hefir verið veittur 5.000 kr. byggingarstyrkur. Hefir þá verið lagt fram 77 þús. kr. alls af ríkinu í því skyni, og jafnmikið af héraðsins hálfu. ,

Þá hefir verið veitt til sama skóla fyrir gólfdúka kr. 2.722,21. Dómsmrh. áleit heilsu nemenda hættu búna, ef gólfin væru ekki dúklögð, en skólanefnd taldi sig ekki hafa fé til að taka þátt í þeim kostnaði að sinu leyti. Má því skoða þetta sem heilbrigðisráðstöfun frá hálfu hins opinbera, sem skólan. tekur ekki þátt í.

2. og 3. liður 6. gr. eru færðir í dönskum krónum. Þetta er óviðkunnanlegt og villandi, og virðist að auðvelt hefði verið að umreikna þetta í íslenzkar krónur.

Þá finnur n. að því, að veittur hefir verið 7.500 kr. styrkur til söngkórs til Danmerkurfarar, þar sem hægt hefði verið að bera þessa fjárveitingu undir þingið. Ennfremur hefir glímumönnum ver ið veitur 2.000 kr. styrkur til Þýzkalandsfarar í viðbót við 2.000 kr., er þingið veitti í þessu skyni. Þó að n. vilji ekki beint áfella stj. fyrir þetta, þykir henni þetta samt fullstór upphæð.

Ég vil undirstrika það, sem n. minnist á í nál. um húsaleigu, ljós og hita í teiknistofu húsameistara ríkisins. Þetta hefir verið greitt ár eftir ár og jafnan sett í fjáraukalög, og er auðséð, að hjá þessum kostnaði verður ekki komizt í framtíðinni. N. telur því sjálfsagt að taka þetta framvegis upp í fjárlög.

Styrkur til flugferða finnst n. nokkuð hár. Fellir hún sig ekki við, að jafnmiklar upphæðir séu goldnar bak við þingið, þótt hinir og aðrir sendi áskoranir og tillögur. Og þótt miðstjórn ákveðins flokks hafi sent stj. áskorun um þessa greiðslu, telur n., að sú krafa hafi ekki það gildi, að stj. væri skylt að hlaupa upp til handa og fóta og greiða svo háa upphæð án heimildar.

Um 8. gr. er ekkert að segja, þar er aðeins að ræða um sjálfsögð útgjöld.

Þá er 9. gr., sem n. hefir gert nokkrar aths. við og einu brtt., sem hún flytur, en það er um kostnað við undirbúning alþingishátíðarinnar. Það eru aðallega 3 liðir, sem hátíðarnefndin hefir ekki sætt sig við, hvernig færðir eru, þar sem hún hefir ekki samþ. eða ávísað þessum upphæðum. Lét framkvæmdarstjóri hátíðarnefndar þá ósk eindregið í ljós, að þetta yrði öðruvísi fært og ekki talið til kostnaðar við alþingishátíðina. N. telur aukaatriði, hvernig þetta er fært, þar sem öllu fénu er varið til hins sama og kemur úr sama vasa, en hefir þó fallizt á till. framkvæmdarstjóra hátíðarnefndar og flytur brtt. samkv. því. Skal ég nú gera grein fyrir þessum brtt.

Við 2. lið 9. gr., kr. 128.126,00 til hátíðarnefndar Alþingis til undirbúnings hátíðarinnar, hefir hátíðarnefnd enga aths. gert. Aftur vill hún ekki viðurkenna 4. lið að öllu leyti, kr. 136.872,44 til húsameistara, vegna alþingishátíðarinnar. Hefir fjvn. því tekið út af þessum lið 2 upphæðir, en fært aðrar á sérstakan lið. Til Laugarvatnsskóla hafði verið greitt á þessum lið kr. 42.636,20, en tekið aftur út kr. 30.000,00. Eftir standa þá kr. 12.636,20, sem forstöðumenn skólans hafa viðurkennt, að skólinn eigi að endurgreiða. Leggur n. því til, að þessi upphæð verði dregin frá. Ennfremur vill n. taka út af þessum lið 35.000 kr., sem er kostnaður við að byggja upp Þingvallabæinn; er það gert eftir till. hæstv. dómsmrh., sem hugsar sér, að þetta verði greitt á annan hátt. N. vill því taka burt af þessari upphæð samtals kr. 47.636,20. Ennfremur hefir n. tekið nokkrar fleiri upphæðir út af þessum lið og fært undir nýjan lið, er hún kallar ýmislegan kostnað á Þingvöllum, en þær eru þessar:

Girðingar ................. kr. 3.000,00

Vatnsveita ................ — 3.500,00

Flutningur konungshússins — 13.500,00

Ýmislegur kostnaður ...... — 3.546,00

eða samtals kr. 23.546,00

Hinar 2 brtt. n. eru við 5. lið, greiðsla til vegamálastjóra, til ýmissa aðgerða á Þingvöllum vegna alþingishátíðarinnar. Upphæðin er í frv. talin kr. 44.188,20, en vegamálastjóri kveðst hafa látið alls vinna fyrir kr. 50.526,47; mismuninn, kr. 6.338,27, hefir hann í bili greitt með öðru vegagerðarfé. Eftir till. hans er liðurinn því hækkaður um þessa upphæð, kr. 6.338,27. Hinsvegar vill n. taka út og færa á sérstakan lið 2 upphæðir, sem hátíðarnefndin telur alþingishátíðinni óviðkomandi, en það er vegur að Þingvallabæ, kr. 600,00, og vegir að Valhöll og konungshúsi, kr. 10.350,00, eða samtals kr. 10.950,00. Verða þá eftir á þessum lið kr. 39.576,47. Eins og menn sjá, eru þetta aðeins tilfærslur, en n. taldi rétt að verða við kröfu hátíðarnefndar um, að þannig verði fært, og leggur til, að svo verði gert.

Þá er einn liður í 9. gr., síðasti liðurinn, sem ég vil skýra nokkuð, því að honum fylgir lítil skýring í frv., en upphæðin allhá. Það eru rúmlega 60.000 kr. til endurgreiðslu tunnutolls 1919. Þetta er þannig til komið, að 1919 reis deila milli íslenzku stj. annarsvegar og norskra síldveiðimanna hinsvegar um það, hvort þeir væru skyldir að greiða toll af tunnum og salti, sem þeir hefðu innanborðs, þó að þeir kæmu iðulega inn á hafnir til þess að reka erindi sín. Tollurinn var innheimtur, en síldveiðimenn risu upp á eftir og kröfðust endurgreiðslu á tollinum. Töldu þeir stríða móti alþjóðalögum að taka tolla af fiskiskipum, er stunduðu veiðar úti á rúmsjó, þegar þau leituðu inn á hafnir. Söfnuðu þeir kröfum um endilangan Noreg og náðu saman kröfum að upphæð 350 þús. kr. Þáv. fjmrh., Magnús Jónsson, gekk að því að endurgreiða 50.000 kr., ef aðrar kröfur væru þá látnar falla niður. Að þessu var ekki gengið, og hefir staðið í þófi allt fram til síðasta árs. Fyrrv. fjmrh., Jón Þorláksson, fékk málið til meðferðar; tókst honum að fá sannað, að þessi skip, sem voru krafin um tollinn, voru ekki eingöngu sjóferðaskip, er renndu inn á hafnir, heldur seldu þau afla sinn stundum í landi og voru í raun réttri gerð út frá landinu. Var þá fengin sönnun þess, að þeim bar að greiða tollinn. Hinsvegar sannaðist, að nokkur hluti tunnanna hafði verið fluttur til Noregs aftur ónotaður, og áttu aðiljar lögum samkv. kröfu á að fá endurgreiddan toll af þeim; nam sú upphæð um 30.000 kr. En af því að boðizt hafði verið til að greiða 50.000 kr., þótti rétt að standa við það, og er Norðmenn gengu að því boði fyrir 2 árum, var upphæðin send samstundis. Þessi 350 þús. kr. krafa hefir því verið leyst út með 50 þús. kr. norskum, eða rúmlega 60 þús. ísl. krónum.

Þá skal ég geta þess, sem tekið er fram í nál., að n. virðist reikningsfærsla ríkissjóðs ógreinileg og ruglingsleg. M. a. má geta þess, að í þessu frv. standa stundum aðrar upphæðir en þær, sem greiddar hafa verið. Ennfremur eru ýmsar millifærslur þannig vaxnar, að erfitt er að átta sig á. Þá er einkennilegur háttur á greiðslum til opinberra bygginga. Þær fara ýmist gegnum hendur húsameistara ríkisins, presta, þegar um bygging prestssetra er að ræða, forstöðumanna skóla, þegar um skólahús er að ræða o. s. frv. Er oft erfitt að henda reiður á, hve miklu er varið til hverrar byggingar um sig. Þannig gat húsameistari ríkisins ekki gefið upplýsingar um, hve miklu fé hafi verið varið til Laugarvatnsskóla, því að það hafði ekki farið allt í gegnum hendur hans. N. telur rétt, að húsameistari — eins og t. d. vegamálastjóri — annist allir greiðslur fyrir þau verk, sem hann á að annast, og geri grein fyrir þeim. Þetta ætti þannig að vera, og leggur n. töluverða áherzlu á, að þessu verði kippt í lag.

Ég man ekki til, að ég hafi átt að greina fleira fyrir hönd n. Þrír nm. hafa skrifað undir nál. með fyrirvara, og munu þeir sjálfir gera grein fyrir því, í hverju hann er fólginn.