09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

361. mál, fjáraukalög 1929

Jón Sigurðsson:

Þar sem nú er áliðið, skal ég ekki þreyta hv. deild með langri ræðu, en greina stuttlega ástæðurnar til fyrirvara okkar hv. þm. Borgf. og hv. 3. þm. Reykv. Hv. frsm. hefir tekið það fram fyrir hönd n., sem hún var yfirleitt sammála um, en það eru nokkur atriði, sem við þrír viljum leggja ríkari áherzlu á, eða litum jafnvel öðrum augum.

Fyrst er aðgerðarkostnaður á prestssetrinu í Vallanesi. Til aðgerðarinnar hefir verið varið 7.000 kr., en ekki 3.000 kr., eins og stendur í frv. Þetta þykir mér alldýr viðgerð á húsi. Að vísu var miðstöð sett í húsið, og er tekið fram í aths. við frv., að það hafi verið kalt og óþægilegt til íbúðar. En svo er víðar, og því miður virðist hæstv. stj. ekki taka jafnmjúkum höndum á öllum, sem eiga að stríða við erfiðleika. T. d. skal ég geta þess, að í mínu kjördæmi er prestssetur, þar sem presturinn hefir byggt upp að mestu leyti af eigin rammleik, án verulegs styrks úr ríkissjóði. Nú hafa húsin reynzt köld, og prestur hefir því sótt um ofurlítinn styrk til þess að setja upp miðstöð, ekki 7.000 kr., heldur 500– 700 kr. En hann hefir ekki, að því sem ég frekast veit, verið virtur svars. Því að það virðist vera svo með þetta sem margt fleira, að það fer nokkuð eftir því, hver í hlut á.

Hv. frsm. gat þess réttilega, að kostnaðurinn við aðgerð á Menntaskólanum hefði komizt upp í 46.000 kr. árið 1929, samkv. upplýsingum húsameistara ríkisins. Þessi upphæð hefir farið til þess að útbúa lesstofu, nokkrar heimavistir o. fl. Úr því að hv. frsm. fór að tíunda framkvæmdir stj., er rétt að geta þess, að hann taldi enganveginn allt af afrekum hennar. Hv. frsm. láðist að geta um kamrana, fatasnagana og vindsnældurnar, sem kostuðu 5.000 kr. Eftir ummælum hæstv. dómsmrh. virðist hann líta svo á, að þetta sé eitt hið mesta afrek, sem unnið hefir verið í skólamálum hér á landi, ef dæma skal eftir því, að í 2 ár samfleytt hélt hæstv. ráðh. varla svo ræðu eða skrifaði grein, að hann vegsamaði ekki sjálfan sig fyrir þessi stórvirki. Kostnaðurinn við aðgerð á skólanum er því samtals um 51.000 kr.

Þá skal ég leyfa mér að gera nokkrar aths. við fjárveitingarnar til Laugaskóla. Hv. frsm. gat þess, að framlag ríkissjóðs til skólans hefði numið 77 þús. kr., og til húsmæðraskólans á sama stað 31 þús. kr., samtals 108 þús. kr. Með sama tillagi frá héruðunum, sem standa að skólunum, hefir þá verið varið til skólans 216 þús. kr. Þessar 108 þús. kr. úr ríkissjóði eru óneitanlega álitleg fúlga, en þó eru þessir skólar aðeins hálfdrættingar á við uppáhald og kjöltubarn hæstv. dómsmrh., Laugarvatnsskólann. Í þann skóla hefir stj. þegar ausið um eða yfir 200 þús. kr. úr ríkissjóði. Það lítur þó út fyrir, að hæstv. dómsmrh. hafi viljað bæta ofurlítið úr þessum áhalla, því að einn góðan veðurdag sendir hann Laugaskóla gólfdúka fyrir kr. 2.722,21, án þess að ætlazt sé til, að þetta verði að neinu leyti endurgreitt eða héraðsbúar leggi nokkuð fram á móti, eins og lög gera ráð fyrir. Mér er tjáð, að þetta hafi verið gert án þess að nokkur ósk hafi um það komið frá skólanefnd eða öðrum, og að skólanefnd hafi jafnvel ekki talið þörfina brýnni en svo, að hún mundi alveg neita að endurgreiða helminginn af verði dúkanna, þó að þess væri krafizt, heldur mundi þá tjá hæstv. dómsmrh., að hann gæti hirt dúkana aftur. Hér er því að ræða um gjöf til skólans úr ríkissjóði í algerðu heimildarleysi, sem ber að átelja. En þetta er spegill af ástandinu. Fyrst sett eru lög um það, að ríkissjóður skuli leggja fram til héraðsskóla helming til móts við héraðið, þá er það auðvitað, að þeim lögum ber að fylgja sem öðrum lögum.

Einn liður var það í 9. gr., sem hv. frsm. gekk alveg framhjá: 3.000 kr. utanfararstyrkur til hv. 2. þm. Árn. Þessi kostnaður var, svo sem kunnugt er, talinn til undirbúnings alþingishátíðarinnar, en stj. hefir nú tekið hann burt af þeim lið, enda hefir hátíðarnefndin ekki viljað við hann kannast. Og mér er ekki grunlaust um, að stj. hafi dregið hér undan, því að ég hygg, að sami maður hafi fengið sér greiddar í Kaupmannahöfn 800 danskar krónur. Verður fjárveitingin til hans því alls um 4.000 kr. Að undanskildum þessum styrk og 1.000 kr. til Hallgríms Þorbergssonar eru engir styrkir teknir upp í fjáraukalög af öllum þeim aragrúa persónulegra styrkja, sem stj. hefir veitt. Það er vitanlegt, að hæstv. stj. hefir veitt utanfararstyrk að upphæð á milli 20 og 30 þús. kr., og er í fjárl. heimild fyrir aðeins litlum hluta þeirra. Ég tel því ekki óeðlilegt, að leitað hefði verið aukafjárveitingar fyrir þessum styrkjum, og virðist einnig á þessu sviði vera að ræða um allrífleg tíundarsvik hjá hæstv. stj.

Um erindi hv. 2. þm. Árn. í þarfir alþjóðar er með öllu ókunnugt. Í grg. frv. er ekki á það minnzt, og þó hygg ég, að einhver grein sé gerð fyrir öllum öðrum liðum frv. Hæstv. stj hefir verið spurð um þessa fjárveiting hér í hv. deild og af fjvn., en ekki gefið neitt svar. Af þessu verður ekki dregið annað en að hann hafi ekkert slíkt erindi átt, og sé hér því um gjöf að ræða úr ríkissjóði. Slíkar gjafir ber að sjálfsögðu að átelja. Og komi nú ekkert fram frá hæstv. stj. þessu til skýringar, sem við fjvnm. teljum fullnægjandi, munum við flytja brtt. við 3. umr. um að liðurinn falli niður.

Að lokum skal ég minnast á greiðslurnar í 9. gr. (19. gr. fjárl.), og kem þá að framkvæmdunum á Þingvöllum.

Samkv. fjáraukalagafrv., er stj. lagði fyrir Alþingi, telur hún greitt vegna alþingishátíðarinnar kr. 309.186,64. N. hefir ekki séð sér annað fært en að fella niður talsvert stórar upphæðir af þessum lið, sem stj. hefir greitt án heimildar og eiga ekki heima þarna, svo sem 35.000 kr. til byggingar Þingvallabæjar og 12.600 kr. til Laugarvatnsskóla. Auk þess hefir stj., sumpart með samþykki hátíðarnefndar og sumpart í fullu heimildarleysi, varið yfir 50 þús. kr. úr ríkissjóði til þess að færa tvo timburhjalla til á Þingvöllum.

Því er ekki að neita, að það virðist svo, sem það komi ekki fram við þetta mjög glæsileg mynd af hagsýni hæstv. stj., eða hennar embættismanns f. h. ríkissjóðs, við sumar þessar framkvæmdir. Annað húsið, hin svokallaða Valhöll, var sett í mýrarsvakka, sem kostaði ærið fé að lagfæra, sem sé 3.500 kr., og auk þess kostaði stórfé að gera veg að þessum tveimur húsum, ekki minna en 10.350 kr. Auk þess varð að byggja brú, sem kostaði yfir 10.000 kr., til þess að vegurinn yrði nothæfur. M. ö. o. það er búið að koma í þetta milli 30–40 þús. kr. Það er svona álíka upphæð og varið er á einu fjárhagstímabili til sumra stærri héraðanna til vegabóta, og það er óhætt að segja það, að þau héruð, sem hafa fengið slíka upphæð, hafa þótzt bera vel úr býtum.

Til glöggleika skal ég leyfa mér að lesa upp dálítið úr þessum greiðslum; er það ekki ófróðlegt til að fá gleggra yfirlit yfir alla ráðsmennskuna. Ég vil þá, með leyfi hæstv. forseta, nefna þessar greiðslur:

Flutningur Valhallar ............. 19.000 kr.

Flutningur konungshússins .. 13.500 -

Lagfæring umhverfis Valhöll 3.500 -

Vatns- og skólpleiðsla til

Val hallar ............................ 1.300 -

Vegur að Valhöll . ................ 7.000 -

Vegur að konungshúsi ......... 3.350 -

Ýmis kostnaður við þessi verk 3.420 -

Brú á veginum ....................... 10.000 -

Auk þessa er líka vatnsveita,

sem kostar …………............. 3.500 -

sem gert er ráð fyrir, að Valhöll og konungshúsið njóti góðs af. — Þannig er þá búið að sóa úr ríkissjóði á milli 60 og 70 þús. kr. í þetta.

Ég ætla svo ekki að rekja þessa sögu lengur. Við teljum, að hér hafi ekki verið vel á haldið, síður en svo, og mér er nær að halda, að með hagsýni og viðleitni til að spara fé ríkissjóðs hefði áreiðanlega mátt komast af með a. m. k. 2/3, ef ekki helming þess fjár, sem eytt hefir verið til þessara hluta.

Um færsluna á ýmsum þessum útgjöldum ætla ég ekki að ræða, því að hv. frsm. n. hefir gert það að umtalsefni, og það ekki að ástæðulausu. Það er óhætt að segja, að það er beinlínis hrapallegt, þegar maður fer að leita sér frekari upplýsinga, t. d. hjá húsameistara. Yfirleitt veit hann ekki um kostnað við ýmsar byggingar, sem ríkissjóður leggur stórfé í, hefir ekki nokkuð með það að gera, nema svona að ávísa á það nokkrum tugum þúsunda stöku sinnum; það eru hinir og aðrir, sem þar koma til skjalanna. Það er sýnilega ekkert heildaryfirlit yfir neitt, heldur er látið vaða nokkuð á súðum, sem kallað er, um þær fjárreiður, sem að byggingunum lúta. Þetta finnst okkur með öllu óhæfilegt, og það var með þetta fyrir augum, sem við sáum okkur neydda til að gera fyrirvara.