09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

361. mál, fjáraukalög 1929

Ingólfur Bjarnarson:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð út af ummælum hv. 2. þm. Skagf. viðvíkjandi gólfdúkum, sem Laugaskóli hefir fengið, þar sem hann var eitthvað að orða það, að hann hefði fulla ástæðu til að halda, að skólanefnd Laugaskóla hefði ekki álitið þessa dúka nauðsynlega. Hún hefði ekki beðið um þá, og hefði kannske viljað senda kennslumálaráðherranum þá aftur.

Ég vildi lýsa yfir því, að þessar dylgjur eru ekki eftir mér hafðar, og það því síður, sem mér er kunnugt um, að þessum gólfdúkum var tekið mestu feginshendi; voru enda mjög mikil nauðsyn. Gólfið var sprungið, og stafaði af því óþægindi og óhollusta. Þegar kennslumrh. útvegaði skólanum þessa gólfdúka, var því auðvitað tekið með sérstökum þökkum og viðurkenningu af skólanefndinni.

Annars finnst mér dálítið einkennilegt, þegar maður lítur yfir fjáraukalögin, bæði þessi, sem hér liggja fyrir, og undanfarið, og athugar þær mörgu fjárveitingar til misjafnlega nauðsynlegra hluta, hversu lítil vinsemd kemur fram hjá hv. 2. þm. Skagf. í garð þessa umrædda skóla, með því að átelja sérstaklega þessa smáupphæð, sem veitt var skólanum án þess að hann legði fé fram á móti. Lítur út fyrir, að þetta sé sprottið af sérstakri óvild til skólans, þó ég telji það furðulegt.