09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

361. mál, fjáraukalög 1929

Jón Sigurðsson:

Ég held, að hæstv. dómsmrh. hafi orðið eitthvað utan við sig, því að allan seinni hluta ræðu sinnar var hann að svara því, sem ég hafði ekki talað um. Hann talaði um, hvort húsameistari ætti að halda aðskildu efni fyrir hverja byggingu. Ég sagði bara, að bókhald þess manns og allar færslur sýndu, að hann hefði svo lítil yfirtök á þessum málum, að hann hefði ekki hugmynd um, hvað búið væri að greiða til einstakra bygginga. Ég átaldi það, að hann hefði ekki það vald, sem hann ætti að hafa. Það var algerð vitleysa, sem hæstv. dómsmrh. ásakaði mig um. Hvað viðvíkur þessum greiðslum vegna alþingishátíðarinnar heldur hann því fram, að þær séu borgaðar vegna ákvarðana hátíðarnefndarinnar. Hún hafi ákveðið að færa húsin. En hver fékk hana til að samþykkja þetta? Hver var það annar en hæstv. dómsmrh. sjálfur, sem átti upptökin?

Þegar það var samþ., mun þó hafa verið gert ráð fyrir miklu minni kostnaði heldur en síðar reyndist. Annars vil ég segja hæstv. dómsmrh., að hvort sem það er stj. eða nefndin eða einstakir menn, sem fara með fé ríkissjóðs illa, þá mun ég ekki spyrja hann leyfis að átelja það. Ég tel mig hafa fullan þingmannsrétt til þess. Naglaskapinn, sem hann brigzlaði mér um, læt ég mér í léttu rúmi liggja. Ég held, að fleiri kysu sér hann en fjársóunina, sem hæstv. dómsmrh. er eiginlegust.

Ég hefi aldrei dregið í efa um aðstandendur Laugaskólans, að þeir hafi ekki tekið gjöfinni þakksamlega, heldur hitt, hvort þeir vildu leggja fram sinn helming á móti, eins og þeir áttu að gera samkv. lögum. Hér er því að ræða um gjöf, sem hæstv. dómsmrh. hafði ekki heimild til. Hann getur gefið sitt fé, en ekki ríkissjóðs. — Ég þarf ekki fleiru að svara.