11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (2134)

361. mál, fjáraukalög 1929

Einar Jónsson:

Mér finnst þessi brtt. 3 hv. fjvnm. harla einkennileg, þar sem kunnugt var áður, að búið var að veita styrkinn, enda þótt í fullu heimildarleysi væri, og maðurinn hafði farið utan í fullu trausti þess, að förin mundi verða þjóðinni til gagns og að hann mundi ekki verða krafinn um endurgreiðslu. Ég álít, að þar sem hér er um svo lítinn blóðmörskepp að ræða úr potti hæstv. stj., þá sé harkalega farið með hv. 2. þm. Árn., ef nú á að fara að krefja hann um endurgreiðslu til ríkissjóðs, og öfunda ég ekki hv. þm. Borgf. af því, eða neinn, sem fyrir því stendur. Þó að margir trúi, að lítið gagn hafi stafað af þessari för, þá er þó hastarlegt að krefja þann, sem förina fór. Það er rétt hjá hv. 2. þm. Árn., að stj. á að svara hér til. En ég veit, að verði harkalega að farið, mun hv. 2. þm. Árn. greiða þessa upphæð úr sínum vasa, enda þótt rétt væri, að stj. greiddi hana sjálf úr sínum sjóði, eða sá ráðh., sem hér á hlut að máli.