03.04.1930
Efri deild: 68. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Baldvinsson:

Af því að ég á nú ekki eftir nemu stutta athugasemd, þá mun ég ekki minnast á öll þau mál, sem fram hafa komið í þessum umr. og framsóknarmenn hafa drepið fyrir okkur jafnaðarmönnum. Það var sá tónn í ræðu hæstv. forsrh., að ég hefði ekki haft undan miklu að kvarta, því að Framsóknarflokkurinn hefði verið fylgjandi öllu, sem máli skipti frá okkur jafnaðarmönnum. Mál eins og afnám fátækraflutninga, veðlánasjóður sjómanna o. fl. hafa enn ekki náð samþykki, og fjöldi annara mála, sem ég hefi áður nefnt. Sum af þeim málum, sem náð hafa samþykki Alþ. og eru orðin að lögum, eru nú í raun og veru ekki nema svipur hjá sjón, og bútuð niður og breytt frá því, sem frv. voru upphaflega, þegar þau voru fyrst fram borin af okkur jafnaðarmönnum. Má þar t. d. nefna lögin um verkamannabústaði. Fyrst flutti hæstv. forsrh. brtt. við frv., sem drógu nokkuð úr þeim framkvæmdum, sem ætlazt var til, að gerðar yrðu samkv. hinu upphaflega frv. Svo komu enn brtt. við frv. frá einum hv. framsóknarflokksmanni í Nd., sem gerðu það að verkum, að frv. var lítils virði, þegar það var afgr. út úr þinginu sem lög. En hæstv. ráðh. á þarna nokkra afsökun. Hann sat ekki á þinginu síðustu dagana vegna lasleika, og gat því ekki fylgzt eins vel með málinu.

Um undirbúning tryggingarmálanna hefir verið mjög mikil tregða hjá hæstv. stj. (Forsrh.: Það er algerlega rangt). Ég má fullyrða, að þáltill., sem flutt var á síðasta þingi um að skora á stj. að láta undirbúa almannatryggingar, var óútrædd. Það var ekki einu sinni hægt að fá framsóknarmenn til að samþ. og afgreiða þáltill. um svo stórt mál, sem hæstv. ráðh. þykist nú hafa mikinn áhuga fyrir og segir, að sé verið að rannsaka.

Skipun bæjarstjóraembættis á Siglufirði er ekkert smámál; það er beinlínis stefnumál um fyrirkomulag á stj. kaupstaðanna. Sú stefna, sem kom fram í því frv., var hin sama og í því stjfrv., sem samþ. var á síðasta þingi um stj. bæjarmálefna, en er þverbrotin á þessu þingi, með því að neita Siglfirðingum um að fá sérstakan bæjarstjóra.

Þá er það nýbýlamálið. Hæstv. forsrh. ætlaði að ná sér niðri á mér með því að beita gegn mér rökum frá hv. þm. Ísaf. Það hefði vitanlega verið slæmt fyrir mig, ef hæstv. ráðh. hefði getað beitt rökum hv. þm. gegn mér í þessu máli. En hæstv. ráðh. hefir annaðhvort tekið rangt eftir, eða ekki heyrt rök hv. þm. Ísaf., þegar hann var að ávíta stj. fyrir að vilja fjölga hinum smáu og dreifðu býlum. Það var þetta eina orð: dreifðu, sem hefir farið fram hjá hæstv. ráðh. En frv. það, sem ég flutti, var um að stofna tvö býlahverfi hér sunnanlands.

Þá sagði hæstv. ráðh., að fróðir menn í þessum efnum þyrftu ekki að sækja búvísindi til mín eða taka landbúnaðartill. mínar alvarlega. Mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja hæstv. ráðh., að sá maðurinn, sem mestan áhuga hefir á landbúnaðarmálum, Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri, var mestur hvatamaður þess, að ég flutti þetta frv. mitt í þessu formi. Sigurður búnaðarmálastjóri trúir á, að þessi býlahverfi gefist bezt, þar sem allt landið sé ræktað sameiginlega, og þar sem búendur geti haft sameiginleg not af stærri vélum og verkfærum og samvinnu um ýmsa aðra hluti. Álítur hann, að þetta muni verða til mikils hagnaðar fyrir landbúnaðinn. Þetta brýtur ekki í bág við það, sem hv. þm. Ísaf. sagði, því að hann álítur, að það þurfi að vera sem mest samvinna um búskapinn, og hún getur blessazt, hvort heldur er á stórbýlum eða í smábýlahverfum, en alls ekki á dreifðum smábýlum.

Ég sé, að ég má ekki níðast á þolinmæði hæstv. forseta um of, og þar sem hæstv. ráðh. eru ódauðlegir, en Íhaldið virðist hinsvegar hafa gefizt upp við að nota þennan eldhúsdag, þá verður líklega ekki lengur haldið áfram í eldhúsinu að þessu sinni.