14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Halldór Stefánsson:

Það er augljóst, að á þeim tveimur stöðum, þar sem einungis hafa starfað útibú frá Íslandsbanka, verður fjárþröng mest fyrir dyrum vegna stöðvunar bankans. Þessir staðir eru Vestmannaeyjar og Seyðisfjörður. Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. gat ekki um, að Landsbankinn ætlaði að hefja útlánsstarfsemi nema á öðrum þessara staða, nefnilega Vestmannaeyjum. Út af því þykir mér ástæða til að spyrja hæstv. ráðh., hvort ekkert eigi að gera til að bæta úr réttmætri rekstrarlánaþörf á Seyðisfirði. Þótt þörfin sé þar máske ekki eins aðkallandi, mun þó ekki síður nauðsyn á að bæta úr rekstrarlánaþörfinni þar, enda er þar allmikill útvegur, en staðurinn hinsvegar í atvinnukreppu fyrir, sem kunnugt er, og þolir því síður ný áföll. Ég vil því beina þeirri áskorun til hæstv. stj., að nauðsynlegum og gagnlegum atvinnurekstri við Seyðisfjörð verði séð fyrir þeirri úrlausn í þessu efni, sem nauðsynlegt er.