14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég verð að láta í ljós ánægju mína yfir þeim móttökum, sem frv. þetta hefir hlotið hér í þessari hv. d. Þó að einstakir þm. hafi fremur lagt á móti frv., þá hefir það allt gerzt með ró og stillingu, og vil ég mega taka það sem merki þess, að afbrigði fáist og málið nái skjótri afgreiðslu, sem og vera ber.

Hv. 2. þm. G.-K. gat þess réttilega, að ég hefði látið þau orð falla, að Landsbankinn myndi annast öll heilbrigð fyrirtæki, sem hingað til hafa notið Íslandsbanka um veltufé. En þar með er enganveginn sagt, að hann muni gera það öldungis skilmálalaust, enda hefir hann nú sett þessa skilmála. Ég vil taka undir með hv. þm. Vestm., að undir þessum alveg sérstöku kringumstæðum er óhjákvæmilegt að grípa til alveg sérstakra ráðstafana, enda þótt slíkar ráðstafanir séu ekki í beinu sambandi við meginreglur þær, sem á venjulegum tíma gilda í þessum efnum.

Þá skal ég aðeins víkja að þeirri fyrirspurn hv. þm. N.-Ísf., hverjir ættu að meta hverjum lána skyldi, og hverjir ættu að ráða, hvort fyrirtækjum skyldi halda áfram, ef þau gengju illa. Svarið er ótvírætt. Allar slíkar lánveitingar eru í höndum Landsbankastjórnarinnar; hún hefir óskoraðan ákvörðunarrétt í þeim efnum. Hv. þm. spurði ennfremur um það, hvort hættulaust væri að lána þeim fyrirtækjum, sem ekki hefðu fé í fyrsta túrinn. Ég skal benda hv. þm. á það, að fyrirtæki þau, sem við Íslandsbanka hafa skipt einvörðungu, eiga þar öll sín veð, og eru því sérstaklega illa stödd, a. m. k. í svipinn, og þess vegna verður að grípa til sérstakra ráða til þess að framleiðslan geti haldið áfram yfir vertíðina. Hinsvegar skal ég játa, að vald Landsbankastjórnarinnar er mikið, en þetta frv. eykur tiltölulega lítið völd hennar, sem hún þegar hefir.

Hv. 1. þm. N.-M. benti á annan stað en Vestmannaeyjar, sem lokun Íslandsbanka hlyti að valda ýmsum viðskiptaörðugleikum, nefnilega á Seyðisfjörð. Spurðist hann fyrir um það, hvernig hægt væri að bæta úr lánsþörfinni þar, einkum í tilliti til útvegsins á Hornafirði. Ég nefndi áðan aðeins Vestmannaeyjar í þessu sambandi, af því að þörfin þar er meira aðkallandi, en hv. þm. skal ég upplýsa um það, að ríkisstj. hafði fund með bankastjórum Landsbankans í gær, og þar kom þetta einnig til athugunar. Var það álit bankastjóranna, að Landsbankinn gæti sinnt lánsþörf Seyðfirðinga í gegnum útibúið á Eskifirði, og myndi hann nota þessa heimild til þess einnig.

Ég mun leiða hjá mér að þessu sinni að svara hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. En ég skal taka undir með hv. þm. Dal., að með þessu frv. eru brotnar meginreglur að vísu, en slíkt er fullkomlega réttmætt, þegar svona sérstaklega stendur á. Gæti ég og nefnt allmörg dæmi þess, að til slíkra ráðstafana hefir orðið að grípa. Hv. þm. Dal. spurði einnig að því, hvort þessi ríkissjóðsábyrgð yrði verzlunarhúsum í Reykjavík til nokkurrar hjálpar. Ég geri satt að segja nokkurn mun á framleiðslu og verzlun, og það er mín persónulega skoðun á þessu atriði, að Landsbankinn eigi að annast slíkt upp á eigin spýtur og á eigin ábyrgð.

Hv. þm. Barð. kvaðst ekki ljá þessu frv. fylgi sitt, þar sem hann sæi enga þörf slíkra ráðstafana. Ég hygg, að jafngóðgjarn maður sem. hv. þm. Barð. myndi komast að annari niðurstöðu, ef hann athugaði þetta mál til hlítar, en það hefir hann sennilega ekki gert ennþá, enda kom hann of seint til þess að geta hlýtt á þær umr., sem fram hafa farið. Ég vona, að þegar hv. þm. hefir kynnt sér þetta betur og fengið að vita, að hér er um skilyrði að ræða af Landsbankans hendi, þá muni hann sízt verða til þess að bregða fæti fyrir þetta nauðsynjamál.