14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Pétur Ottesen:

Ég verð nú að segja það, að mig furðar ekkert á því, þótt slíkt frv. komi fram. Það er ekki nema eðlileg afleiðing af fjármálaspeki þingmeirihlutans, þó að ríkið verði nú að taka á sínar herðar einhvern hluta af þessu áfalli. Mér var það fyllilega ljóst, að ef við synjuðum bankanum um hjálp yfir örðugasta hjallann, og gerðum hann þannig ófæran um að starfa áfram og standa skil á skuldbindingum sínum innanlands og utan, þá myndi það hafa viðtækar og alvarlegar afleiðingar. Þess hefir heldur ekki þurft lengi að bíða, að grunur minn rættist. En alleinkennilega koma mér nú aðgerðir hæstv. stj. fyrir sjónir, því ég man ekki betur en því hafi verið lýst yfir af tveim ráðh. á lokaða fundinum, að ekkert væri að óttast, því Landsbankinn hefði nóg skilyrði til þess að taka að sér hin heilbrigðu fyrirtæki Íslandsbanka. Þessu var yfirlýst skilmálalaust, og jafnvel hæstv. fjmrh. kvaðst hafa átt tal um þetta við sjálfa Landsbankastjórana. Það var einmitt út af þessu, sem það var þá þegar sagt á þessu fyrsta stigi málsins, að það væri vilji og ásetningur hæstv. stj. að loka bankanum með öllu.

Mér þykir það að þessu leyti dálítið undarlegt, þegar nú átti að fara að reyna á þolrifin í þessari bankastofnun, að þá eru slík skilyrði sett. Mér þykir það undarlegt, því eins og nú er komið bankamálum hér á landi, þá er þetta orðinn höfuðbanki landsins, og þegar hinn bankinn hefir helzt úr lestinni, virðist mér það hljóta að verða svo, að hin höfuðstofnunin taki að sér þetta hlutverk. Einasta afsökunin sýnist geta verið það, að hana vantaði fé, en með þessu frv. er ekki farið fram á það að veita henni fjárstyrk. Það verður þess vegna að taka þessu eins og hverju öðru óhappi og afleiðingu af því, hversu óviturlega hefir verið að farið. En ég ætla ekki að blanda Íslandsbanka inn í umr., svo ég skal ekki fara að tala um það, hvort viturlegt eða óviturlegt sé að taka ábyrgð á bankanum í byrjun, en ég verð að segja það, að frá sjónarmiði þeirra manna, sem báru það fyrir sig að vilja ekki taka að sér ábyrgðina, af því að ekki væri um næga rannsókn að tala, þá virðist mér óhæfilega mikill dráttur á þessari rannsókn. Ef ráðizt hefði verið í það að skipa n. strax, þá mundi hún nú vera búin að ljúka störfum sínum, og þá vera hægt að ganga út frá því, hvað þingið áliti að ætti að verða ofan á um afdrif hans. Þetta liggur því þannig fyrir mér, að það verði að taka afleiðingunum af orðnum hlut, og þótt ég álíti, að það eigi mjög mikinn þátt í því, hve óviturlega hefir verið að farið, þá mun ég ekki ganga á móti þessu frv. því að það er nú svo, að þeir, sem eru í minni hl., verða að beygja sig undir vilja meiri hlutans og taka afleiðingunum af hans vilja og gerðum, hvort sem betur líkar eða verr.

Ég vil í þessu sambandi benda á það, að það er gert ráð fyrir því, að 1. næsta mán. verði þetta Íslandsbankamál tekið fyrir að nýju, eða fyrr, eftir því hvernig á því verður haldið, og það er líka vikið að því hér í grg. frv., að þau viðskipti, sem þessir menn stofna við Landsbankann, þau eigi að hverfa til Íslandsbanka, ef hann verði opnaður aftur.

Þá vildi ég, að það væri athugað, hvort Íslandsbanki á þá að fá þá ábyrgð, sem Landsbankanum er hér veitt, því að ég skil þetta þannig, að viðskiptin flytjist til Íslandsbanka, og það hugsa ég mér að gerist á þann hátt, að Íslandsbanki taki við þeim skuldbindingum, sem Landsbankinn hefir fengið fyrir þessum lánum, og láti þær af hendi sem seðlalán. Mér finnst, þegar þetta er borið saman við það, sem í frvgr. stendur, og það, sem segir í aths. við frv., þá beri á þetta að líta á þann veg.

Það hefir dálítið verið deilt hér um þann drátt, sem orðið hafi á þessu máli, og mér virðist nú sem hv. frsm. þessa máls, hv. þm. V.-Ísf., hafi sýnt hv. 2. þm. Reykv. fullkomlega fram á það, að það er ekkert nema yfirskotsástæða hjá hv. þm. (HV), að nokkuð hefði verið greitt úr fyrir viðskiptamönnum bankans með þeirri skipan, er hann vildi hafa á þeim málum, svo að ég verð aðeins að telja þetta sem vesala tilraun hans til að reyna að þvo sínar skítugu hendur af þessu máli.