14.02.1930
Neðri deild: 25. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Magnús Guðmundsson:

Ég ætlaði að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forsrh., hvort hann búist við því, að þessi hjálp, sem hér er um að ræða, muni verða nægileg fyrir útgerðina á þessari vertíð, sem yfir stendur, eða hvort hann búist við að þurfa að koma aftur til þingsins í svipuðum erindagerðum og nú. Ég spyr um þetta m. a. af því, að það hefir verið upplýst, að hæstv. ráðh. sagði á hinum lokaða fundi um þetta mál, að Landsbankinn tæki við þeim viðskiptum Íslandsbanka, sem heilbrigð væru, og þá tók hæstv. ráðh. ekkert fram um neitt skilyrði, en nú kemur það á daginn, að ríkissjóður á að ganga í ábyrgð. En hafi þetta loforð verið skilyrðislaust upphaflega, þá er það brigðmælgi, ef fram kemur síðar krafa um skilyrði, en hafi skilyrði fylgt í byrjun, þá átti ráðh. að skýra frá því strax, því að ég er viss um, að ef það skilyrði hefði verið með í byrjun, að ábyrgð ríkissjóðs ætti að fylgja, þá myndu margir hv. þm. hafa litið öðruvísi á þetta mál.