14.02.1930
Efri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Jón Þorláksson:

Það var hreinn óþarfi af samþm. mínum, hv. 4. landsk., að vera að blanda 35 millj. inn í þetta mál, eða gefa í skyn, að ég hefði á lokaða fundinum viljað láta ríkið taka á sig ábyrgð á 35 millj. fyrir Íslandsbanka. Sú till., sem ég flutti á lokaða fundinum, var stíluð beint til stj., eins og hv. þm. ósköp vel veit, og stj. hafði samkv. henni óbundnar hendur um það, hvernig hún kæmi í veg fyrir, að starfsemi Íslandsbanka stöðvaðist. Annars er töluverður stigmunur á því tvennu, að takast á hendur ábyrgð á skuldbindingum eins banka, og hinu, að takast á hendur ábyrgð fyrir einstaklinga gagnvart banka, eins og þetta frv. fer fram á. Og hv. 4. landsk. ætti að vita það, að ég er ekkert hrifinn af því, að ríkið taki að sér ábyrgðir fyrir einn eða annan. Það eru aðrir en ég, sem hafa staðið að slíku.

Út af ræðu hæstv. forsrh. skal ég geta þess, að ég hnaut um aðra mgr. grg. af því, að mér var ekki ljóst, hversu mikið mátti í hana leggja, fyrr en hæstv. ráðh. skýrði mér frá því.