14.02.1930
Efri deild: 23. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

116. mál, ábyrgð rekstrarláns til útgerðar

Halldór Steinsson:

Ég vil gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli.

Mér dylst það ekki, að nauðsynlegt er, að útgerðin haldi áfram, þó að Íslandsbanka væri lokað, en ég held, að hægt hefði verið að gera ráðstafanir til þess á annan veg en með þessu frv. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. forsrh., að hann hélt því fram, að það stafaði engin áhætta af þessari ábyrgð. Ef svo er, sé ég ekki betur en að Landsbankinn hefði getað tekið að sér að veita þessi lán án þess að ríkið tæki á sig ábyrgð á þeim, enda ber ríkið samkv. eldri 1. ábyrgð á öllum skuldbindingum Landsbankans.

Ég ætla ekki að bregða fæti fyrir þetta frv. Málið er mikilvægt. En ég mun sitja hjá við atkvgr., af því að ég álít, að þessi ábyrgð ríkisins gagnvart bankanum sé óþörf.