09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Þorláksson:

Ég á hér eina brtt., ásamt hv. 1. þm. G.-K., á þskj. 454 hina XV., við 17. gr., að aftan við hana bætist nýr liður: Til Sesselju Sigmundardóttur, til þess að koma upp heimili fyrir veikluð eða vanrækt börn í samvinnu við barnaheimilisnefnd kirkjunnar. Þetta erindi og skjöl um það bárust svo seint hingað, að ég hygg, að fjvn. Nd. hafi alls ekki getað tekið málið til athugunar, og fjvn. Ed. kannske ekki heldur fengið það fyrr en það var orðið um seinan að setja sig inn í málið. En nú liggur það fyrir ásamt ýmsum skjölum viðvíkjandi þessu efni, þar sem gerð er grein fyrir ástæðum þess.

Það er þá fyrst, að þessi stúlka, sem nefnd er í till., hefir verið þrjú ár eða lengur erlendis í ýmsum stöðum, til þess sérstaklega að kynna sér meðferð á þeim börnum, sem stundum eru kölluð vandræðabörn, en í till. eru kölluð veikluð eða vanrækt börn, í samræmi við það, sem barnaheimilisnefnd kirkjunnar nefnir þau börn. — Hún hefir ágæt meðmæli frá forstöðumönnum slíkra stofnana í Þýzkalandi, þar sem hún hefir verið til að læra þetta.

Það hafa verið meðal presta þjóðkirkjunnar hafin samtök til að beita sér fyrir þessu máli, að það yrði komið upp einhverjum stað, þar sem hægt væri að taka á móti börnum, sem nauðsynlega þurfa að komast frá heimilum sínum, ef þau þá eiga nokkur heimili, eða eru þá að öðru leyti þannig, að það þyki æskilegt að þau séu tekin í slíka stofnun. Í þessu skyni hefir nú barnaheimilisnefnd kirkjunnar, sem þeir kalla svo, keypt jörð austur í Grímsnesi, sem heitir Hverakot, og eins og sjá má af nafninu, er þar jarðhiti til að hafa ýmislegt gagn af. M. a. liggur hér fyrir skýrsla frá hr. Ásmundi Guðmundssyni, dócent við háskólann, sem er framkvæmdarstjóri barnaheimilisnefndarinnar, sem ég skal, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa upp. Hún hljóðar svo:

„Það vottast hér með eftir beiðni, að barnaheimilisnefnd kirkjunnar hefir keypt jörðina Hverakot í Grímsnesi í hví skyni, að ungfrú Sesselja Sigmundsdóttir megi setja þar á stofn heimili fyrir veikluð eða vanrækt börn. Gerir nefndin þetta því aðeins, að hún ber gott traust til þessarar stúlku, að hún muni rækja starf sitt af miklum áhuga og skyldurækt.

Reykjavík 3. apríl 1930.

Ásmundur Guðmundsson framkvstj. Barnaheimilisnefndar“.

En það er ákaflega margt annað, sem þarf til að kosta, en að ná kaupum á jörð og fjárveiting sú, sem hér er farið fram á. Um hana er beðið til þess að unnt sé að koma upp nauðsynlegum húsum til þess að geta komið þessari stofnun á laggirnar.

Að öðru leyti liggja hér fyrir meðmæli um nauðsyn þessarar stofnunar frá dómkirkjupresti, borgarstjóra og lögreglustjóra. Þeir mæla allir ákaflega vel með þessu, og ég skal aðeins lesa upp úr ummælum lögreglustjóra. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það þarf vitanlega ekki að eyða orðum um það, hvílík bráð nauðsyn okkur er á því að eignast slíkt hæli, sem ungfrúin hefir í huga að koma upp.

Ég hika því ekki við að mæla mjög eindregið með því, að ungfrúnni verði veittur umræddur styrkur og teldi góðu máli gerður mikill ógreiði, ef henni verður ekki veitt þessi aðstoð til að koma málefninu í framkvæmd“.

Eins og hljóðbært er, þá hefir lögreglustjórinn í Reykjavík öðru hvoru, og m. a. nú nýlega, haft tækifæri til að kynnast því, hver nauðsyn það getur verið að koma einstökum börnum fyrir á heimilum, þar sem þau fá sérlega umönnun.

Borgarstjórinn í Reykjavík getur þess, að bæjarstjórn hafi haft mál þetta til meðferðar, þ. e. a. s. um ráðstöfun á vandræðabörnum héðan úr bænum, sérstaklega þeim, sem eru á fátækraframfæri, og að sú n. hafi beint málinu á þá braut, að lögreglustjóri hefir leitað samkomulags við barnahælisnefnd kirkjunnar um veru fyrir þau börn í sveit.

Ennfremur eru ummæli í bréfi borgarstjóra um það, að þessari ungfrú verði gert kleift að koma upp slíku heimili. Þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„.... Var rætt um ráðstafanir viðvíkjandi vandræðabörnum hér í bænum, sérstaklega þeirra, sem á fátækraframfæri eru. Áleit n. rétt, að lögreglustjórinn leiti samvinnu við barnaheimilisnefnd kirkjunnar um verustaði handa slíkum börnum í sveit.

Nú hefir það gerzt, að barnaheimilisnefndin hefir keypt jörðina Hverakot í Grímsnesi í því skyni, að ungrú Sesselja Sigmundsdóttir megi setja þar á stofn heimili fyrir veikluð eða vanrækt börn, og mundi ég telja það mjög mikils virði, ef slíkt heimili gæti komizt á stofn þegar á þessu ári. Mér er persónulega kunnugt um, að ungfrú Sesselja hefir brennandi áhuga á því, að geta orðið slíkum börnum, sem hér ræðir um, að liði, og að hún hefir ágæta hæfileika til þess, enda hefir hún árum saman dvalið erlendis, aðallega í Þýzkalandi og Danmörku, eingöngu til að kynnast slíkri starfsemi og verið á ýmsum skólum til að afla sér þeirrar sérmenntunar, sem er nauðsynlegt til þess að geta veitt forstöðu heimili fyrir vanrækt börn“.

Dómkirkjupresturinn í Reykjavík hefir gefið mjög svipuð meðmæli með þessu máli, og í öllum þessum þremur skjölum, sem ég hefi nefnt, eru ákveðin ummæli í þá átt, að þessi stúlka sé alveg sérstökum hæfileikum búin til að veita slíkri stofnun forstöðu.

Við flm. vonum, að þetta nægi til þess, að hv. d. vilji líta á þessa till. með velvild.

Þá er ég ekki við fleiri brtt. riðinn, og ætla ekki að gera neinar brtt., hvorki hv. n. eða annara, að sérstöku umtalsefni. En það eru einstöku atriði í frv. sjálfu, sem ég ætla að minnast á, úr því að ég stóð upp hvort sem var.

Það er fyrst viðvíkjandi 7. gr. Ég er hræddur um, að það séu ekki öll kurl til grafar komin ennþá í frv., eftir því sem það telur vexti af nokkrum erlendum lánum. Mér sýnist af tölunum, að þeir vextir, sem þar eru taldir af lánum, þeir muni svona nokkurnveginn samsvara vöxtum af skuldum ríkissjóðs eins og þær voru í árslok 1928 eða svo. En það mun hafa bætzt við skuldirnar síðan, en vextir af þeim virðast ekki vera taldir í 7. gr. Ég skýt þessu aðallega fram til að benda hv. fjvn. á að athuga þetta til 3. umr. Mér er að vísu ekki kunnugt um, hve mikil lán hafa verið tekin síðan, sem þarf að greiða af vexti og afborganir samkv. fjárl., en það hefir þó heyrzt, að tekið hafi verið þriggja millj. kr. lán til að greiða Landsbankanum stofnfé sitt. Skil ég ekki annað en að það verði að gera ráð fyrir vöxtum og afborgun af því láni, þar sem það mun velta á afkomu Landsbankans, hvort hann verður látinn greiða nokkurn arð af þessu fé, og naumast heimtuð af honum greiðsla á meðan svo er, að hann á ekki til allt stofnfé sitt, en það telur bankastjórnin hann ekki eiga, eins og kunnugt er af reikningum bankans.

Þá vildi ég þar næst leiða athygli að því, að það eru nú komnir vextir og afborganir af ríkisskuldum inn í ýmsar aðrar greinar fjárl. en 7. gr. Tel ég þetta vera ákaflega óheppilegt, því að það er hætt við, að það dyljist frekar fyrir mönnum, hvernig fjárhagur ríkissjóðs er, ef vikið er frá þeirri reglu, sem fylgt hefir verið undanfarin ár, að telja alla vexti og afborganir af skuldum í 7. gr. Til sönnunar þessu vil ég benda á 13. gr. E. 16. Þar stendur: „Afborgun og vextir af láni til L. M. Ericsson o. fl. 141 þús. kr.“. Það eru svo margir gallar á þessum eina lið, að það mætti margt um það segja. Það er fyrst það, sem er alveg ótækt í allri reikningsfærslu, að afborgun og vöxtum er slegið saman, án þess að nokkuð sé tilgreint, hve mikið hvort um sig er; það gera ekki aðrir menn en þeir, sem láta sér lítið annt um að það sjáist, hvernig hagur þeirra er. En auðvitað er, að þetta er ekki annað en skortur á vandvirkni. Og svo stendur: „Afborgun og vextir af láni til L. M. Ericsson o. fl.“. Það er undarlega að orði komizt. Er þetta einhver upphæð, sem ríkissjóður þarf að borga vexti og afborganir af? Ég get hugsað mér að þetta séu vextir og afborgun af skuld til þeirra, en ekki af láni til þeirra. Svo er loks upphæðin prentuð á skökkum stað í dálkinum, prentuð þar sem annar liður á að vera.

Samskonar aths. hefi ég að gera við 13. gr. G. I., þar sem talað er um stofnkostnað útvarpsins. Þar stendur „Afborgun og vextir af láni til Marconifélagsins í London 178.000“. Hér á væntanlega að standa „skuld til Marconifélagsins“. (JóhJóh: Greiðslan gengur til Marconifélagsins). Með einstakri góðvild má kannske teygja þetta orðalag svo, að það verði skiljanlegt, en alltaf meiðir þetta tilfinningu mína fyrir íslenzku máli. Og hvað sem hv. fjvn. gerir, þá er ég alltaf vanur að greiða afborganir og vexti af skuldum mínum, en ekki af lánum mínum til annara. — Auk þess er sama að segja um þetta og liðinn, sem ég nefndi áðan, að ekki er sundurliðað, hvað séu vextir og hvað afborganir. En það er venja hjá öllum fyrirtækjum, sem engu þurfa að leyna í bókhaldi sínu, að halda þessu alveg aðgreindu, svo að það sjáist, hvað hvor liður um sig er hár. Þessi færsla á heima í 7. gr. fjárl., og á að vera þar sundurliðuð.

Það má vera, að fleira sé í frv. þessu líkt. Ég hefi ekki leitað að því sérstaklega. En þessi dæmi sýna, að nú er í fjárlagafrv. farið inn á braut, sem leiðir til ógleggra yfirlits yfir skuldir ríkissjóðs en verið hefir á síðustu árum.