04.02.1930
Efri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Hv. 3. landsk. minntist á þvíngunarráðstafanir, sem ákveðnar væru með þessu frv., og var þeim mótfallinn. En ég lít allt öðruvísi á þær.

Þessar ráðstafanir eru gerðar til þess að tryggja öryggi við hina miklu umferð á Þingvallaveginum, sporna við óreglu og ósamræmi í fargjöldum með bifreiðum. Það er skylda allra að styrkja þessar ráðstafanir vegna heildarinnar, en þær valda ekki tilfinnanlegri „frelsis“-skerðing.

Ég hefi heyrt marga hafa orð á því í sambandi við alþingishátíðina, að þeir bæru kvíðboga fyrir því, að af bifreiðaflutningunum mundi stafa mikil hætta, sem mundi skyggja á afmælisfögnuðinn, og það væri sannarlega hrapallegt, ef slys hlytust af þeim. En eins og áður hefir verið tekið fram, þá verða þvingunarráðstafanir ekki notaðar nema nauðsynlegt sé.

Að því er snertir fargjaldið milli Reykjavíkur og Þingvalla, þá er það rétt, sem hv. 3. landsk. gat um, að það á að vera 10 kr. með fólksflutningabifreiðum. Af því tekur nefndin 1 kr. upp í kostnað þann, sem leiðir af eftirliti með umferð á vegunum og á Þingvöllum. En það er ekki rétt hjá hv. 3. landsk., að þetta sé helmingi hærra gjald en bifreiðastöðvarnar hafa áður tekið, því að fargjaldið hefir verið 5 kr. hvora leið, eða 10 kr. fyrir báðar leiðir. En nú er það augljóst, að bifreiðarnar hljóta jafnan að fara tómar aðra leiðina, frá Þingvöllum fyrstu daga hátíðarinnar og frá Reykjavík síðasta daginn. Á venjulegum túnum fá bifreiðarnar fólk að flytja báðar leiðir. (JÞ: Það er augljóst, hvor aðilinn hefir verið klókari í þessum samningum!). Ég get ekki séð, að það sé neitt athugavert við það, þó að bifreiðastöðvarnar fái sæmilega borgun, svo að þær tapi ekki á fólksflutningunum þessa daga.

En auk þess er það rétt, sem hv. 4. landsk. sagði, að bifreiðarnar verða að fara hægar þessa daga heldur en venjulega.

Ég ímynda mér, að þeir menn séu fáir, sem bifreiðastöðvarnar telja sig svo háðar, að þær þori ekki að setja þeim hærri fargjöld þessa hátíðisdaga en endranær. Flestir af þeim, sem nota bifreiðar til muna hér í Reykjavík, eiga þær sjálfir. Og þó að einhver bifreiðastöð hækki ekki fargjöld sín við hv. 3. landsk., þá er ég viss um, að þær mundu ekkert hika við að hækka fargjaldið við almenning og selja aðkomumönnum utan af landi og útlendingum eftir geðþótta sínum; en það hefði orðið okkur bæði til vandræða og vansæmdar. Þess vegna hefði það verið alveg óforsvaranlegt að setja ekki hámarksverð á fargjöldin.

Ég skal geta þess út af því, sem hv. 4. landsk. sagði, að það er fullkomlega sanngjarnt, að bæjarstj. í Hafnarfirði hafi, eins og bæjarstjórn Reykjavíkur, tillögurétt um þau atriði, sem rætt er um í 5. gr. frv.