04.02.1930
Efri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Jón Þorláksson:

Hv. þm. Seyðf. staðfesti það, sem sagt hefir verið um samninga hátíðarnefndarinnar og bifreiðastöðvanna hér í bæ, en hann reyndi um leið að bera í bætifláka fyrir nefndina með þeirri furðulegu staðhæfingu, að bifreiðar mundu ganga meira mannlausar milli Reykjavíkur og Þingvalla um hátíðardagana en venjulegt er á öðrum tímum. Yrðu flutningsgjöldin óhjákvæmilega að vera hærri fyrir þá sök. Ég hefi nú alltaf haldið, að þar sem flutningarnir verða miklu meiri þessa daga en að öllum jafnaði, en rekstur bifreiðanna á hinn bóginn ekki dýrari, þá gætu bifreiðastöðvarnar vel staðið sig við að hafa fargjöldin lægri þessa daga en ella. Auk þess má benda á, að venjulega þegar menn fara til Þingvalla, þá panta þeir bifreiðina eða sæti í bifreið til baka að kvöldi sama dags. Á meðan staðið er við á Þingvöllum, ræður bifreiðarstjórinn því sjálfur, hvort hann fer til Reykjavíkur aðra ferð með bifreiðina farþegalausa til þess að sækja nýja farþega, eða hann biður á Þingvöllum til kvölds. Það er algengast nú, að bifreiðir fara fleiri en eina ferð hlaðnar til Þingvalla fyrri hluta dags, en þá gjarnan tómar hina leiðina, en flytja síðan fólkið til Reykjavíkur síðari hluta dagsins, og verða þá að fara tómar austur. Á þessu verður sennilega lítil breyting hátíðardagana. Allur þorri hátíðargestanna, sem heima eiga í Reykjavík og vilja dvelja á Þingvöllum um hátíðardagana, fer austur að morgni og til Reykjavíkur að kvöldi. En almenningur verður að greiða tvöfalt fargjald, til stórgróða fyrir bifreiðastöðvarnar. Rök hv. hátíðarnefndar fyrir þessari ráðsmennsku eru vitanlega þau sömu, sem eigendur bifreiðastöðvanna hafa notað til þess að fá n. til þess að gera þessa feikna vitleysu. Er nefndin vissulega ekki of sæl af því að fá 1 kr. af hverju sæti fyrir afgreiðslu bifreiðanna í Reykjavík og á Þingvöllum og bifreiðastæði þar austur frá, en bifreiðaeigendur fá þarna stórkostlega aðstöðu til þess að féfletta almúgann í skjóli þessara mjög svo heimskulegu ráðstafana. Fer svo jafnan, þegar gripið er fram fyrir hendur eðlilegrar þróunar viðskiptalífsins með þvingunarráðstöfunum. Hefir reynslan æ betur og betur sýnt, að slíkt leiðir jafnan til ófarnaðar.

Hvað ræðu hv. 4. landsk. snertir, þá skal ég taka það fram, að ég bjóst aldrei við, að hann færi að lofsyngja hinni frjálsu samkeppni. Hefi ég sízt búizt við svo skynsamlegu úr þeirri átt. Annars vil ég segja það, að ég er ekkert hræddur um að bifreiðastöðvarnar hefðu hækkað taxtann, þótt engar opinberar ráðstafanir hefðu verið gerðar til þess að halda honum niðri. Eða skyldi Alþýðubrauðgerðin hækka verð á brauðum, þótt brauðalítið yrði í bænum um stundarsakir sakir fjölda aðkomumanna? (JBald: Ég veit nú ekki!). Í frjálsri samkeppni beita engin heilbrigð fyrirtæki slíkri aðferð, því þau vilja halda viðskiptavinunum áfram, og vita, að þeir firtast, ef þeim er sýnd slík ósanngirni. Auk þess er mikið til í bænum af aukabílum eða einkabílum, og bifreiðastöðvarnar eiga á hættu, að flutningarnir renni yfir til einstakra manna, ef þær ætla að okra á fólkinu. Það er því hinn mesti misskilningur, ef hv. þm. heldur, að allt fari betur, ef hið opinbera fer að hafa bein afskipti af þessum málum. Og hvað þessa samninga snertir, þá er hér um svo alvarlega féfletting að ræða, að taka þyrfti í taumana og afstýra slíkri óhæfu, ef unnt er án afarmikilla skaðabóta. Að öðrum kosti ætti að tilfæra helming af fargjöldunum á hátíðarkostnaðinn, í stað þess að beita almenning þvílíku gerræði, sem þessi óhæfilega háu fargjöld eru.