17.02.1930
Neðri deild: 29. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

57. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Magnús. Jónsson:

* Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 2. þm. G.-K. Honum fannst ráðstafanirnar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, fremur smávægilegar, og er ég honum sammála um það. Enda væri það óskandi, að ekki þyrfti að gera neinar stórvægilegar ráðstafanir, sem grípa verulega inn f gang þjóðlífsins. En þrátt fyrir það tel ég frv. alls ekki neinn hégóma. T. d. álít ég, að ákvæðin um að loka sölubúðum og skrifstofum séu eitt af undirstöðuatriðum þess, að hátíðin geti farið vel fram. Býst ég ekki við, að frjáls samtök dugi um þau atriði.

Hv. þm. taldi ákvæði frv., um eftirlit með bifreiðanotkun hátíðisdagana óþörf.

En maður verður að hafa í huga, að bifreiðaeftirspurnin getur freistað manna til að draga fram til notkunar gamla bílskrjóða, sem geta stöðvazt þá og þegar. Hér er ekki einungis að ræða um það, að meiri vandi sé að aka bíl hátíðisdagana en endranær, heldur öllu fremur hitt, að þá veltur ennþá meira á því en aðra tíma, að ekkert beri út af. Ef einn bíllinn stöðvast á veginum, verður hann hinum til farartálma. Það mun vera eitt af því erfiðasta við hátíðahaldið, að flytja fólkið á viðunandi hátt fram og til baka milli Þingvalla og Rvíkur og koma umferðinni í gott horf.

Og allt, sem getur orðið til að spilla fyrir því, að það geti tekizt, og sem mögulegt er að koma í veg fyrir, er sjálfsagt að setja um sérstök ákvæði.

Um önnur atriði frv. þarf ég ekki mikið að segja, því um þau virðast menn vera nokkurnveginn sammála. Þó virðist mér hv. frsm. heldur vera að draga í land hvað hátíðarmerkið snertir. Stafar það e. t. v. af því, að það var eina atriði frv., sem hv. 2. þm. G.-K. taldi nýtilegt. Verð ég líklega að ganga hér á milli sem oftar. Ég álít reyndar talsvert mikils virði að lögvernda hátíðarmerki. T. d. mun þurfa að kaupa borðbúnað og þessháttar fyrir tugi þúsunda, til að nota við hátíðahaldið.

Ef á þessa hluti væri sett hátíðarmerkið, mundu þeir efalaust seljast mjög vel að hátíðinni lokinni, sem minjagripir. Hér á Alþ. hefir oft verið deilt um gjöld, sem ekki hafa numið nema örfáum hundruðum kr., en þar sem hér er um að ræða margra þús. kr. hagnað, ætti það ekki að vera talið alveg þýðingarlaust atriði.