03.02.1930
Efri deild: 12. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

41. mál, sala jarðarhluta Neskirkju og ríkissjóðs

Flm. (Ingvar Pálmason):

Frv. sama efnis og þetta var flutt á síðasta þingi hér í deildinni. Frv. þetta fékk hér vinsamlegar viðtökur, en mætti nokkurri andstöðu í Nd. og var að lokum vísað til stj. Nú hefi ég flutt þetta frv. aftur, samkv. áskorunum frá bæjarstjórn Neskaupstaðar. Það, sem olli mótþróanum gegn frv. í Nd., var það, að ekki hafði verið leitað umsagnar hlutaðeigandi sóknarprests. En nú stóð svo á í fyrra, að þá var aðeins settur prestur á Norðfirði, og gat því eigi álitizt aðili í málinu. Þessi sami prestur hefir nú fengið veitingu fyrir prestakallinu, og hefir málið verið borið undir hann, og hefir hann mælt með því með vissum skilyrðum, svo sem sagt er í grg. frv. Hvort sem skilyrði þessi verða uppfyllt eða ekki, tel ég hættulaust að samþykkja frv., því að í 1. gr. þess er svo ákveðið, að samþykki sóknarprests þurfi til sölunnar.

Einnig kom það fram í Nd. í fyrra, að sumir hv. þm. töldu, að setja þyrfti lágmarksverð á jarðarhluta þann, sem er eign ríkissjóðs. Úr þessu er nú bætt hvað hluta ríkissjóðs snertir, en verð á hluta kirkjunnar er ekki hægt að ákveða, meðan ekki er víst, hve stór sá hluti verður. Víst er um það, að lóð undir prestssetur og tún verður undanskilið sölunni.

Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka rök mín frá því í fyrra fyrir þessu máli, enda eru þau að miklu leyti tekin fram í grg. frv., og ég þykist vita, að málið mæti hér hinni sömu velvild og á síðasta þingi, og óska ég að því verði, að lokinni umr., vísað til allshn.