09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

1. mál, fjárlög 1931

Ingvar Pálmason:

Ég á nokkrar brtt. á þskj. 454 og tel rétt að fara nokkrum orðum um þær.

Í fyrsta lagi er það III. brtt. Ég flyt hana af þeirri ástæðu, að í fjárl. þessa árs og undanfarinna ára hafa verið veittir styrkir til að reisa gistihús á stöðum, þar sem mjög er fjölfarið og verður að telja þjóðarnauðsyn, að sæmilegt gistihús sé á. Ég geri ráð fyrir, að um þennan 2 þús. kr. styrk til gistihúss á Egilsstöðum geti verið dálítið skiptar skoðanir. En ef það telst rétt, að ríkið leggi fram fé til að byggja slík hús annarsstaðar, þá er ekki síður ástæða til þess hér á þessum stað. Að vísu stendur svo á, að búið er að reisa hús, sem allir þeir, er að Egilsstöðum koma, sjá strax, að sérstaklega er reist með það fyrir augum að geta veitt gestum gistingu. Þó að þar sé rekið stórt og myndarlegt bú, er þó húsið enn stærra. Allmikil skuld hvílir á húsinu enn. Ég sé ekki, að það séu andmæli gegn tillögunni, þó að húsið sé komið upp.

Ekki þarf að nefna dæmi um það, að fjárveitingarvaldið hafi séð ástæðu til þess að veita byggingarstyrki til gistihúsa á svipuðum stöðum. Ein slík fjárveiting er í fjárl., sem nú er verið að ræða. Um það, að Egilsstaðir séu einn af fjölförnustu stöðum landsins, nægir að benda á, að svo má segja, að þeir séu ekki einungis á krossgötum, heldur má heita, að allir vegir austanlands liggi út frá Egilsstöðum. Til fjarðanna liggja t. d. ekki færri en fimm vegir þaðan, vitaskuld misjafnlega fjölfarnir. Fyrst liggur vegurinn þaðan um Fagradal til Reyðarfjarðar. Annar vegur er um Tungudal og Eskifjarðarheiði til Eskifjarðar. Þriðji liggur ennfremur um Tungudal og Fönn til Norðfjarðar. Fjórði er um Slenjudal og Mjóafjarðarheiði til Mjóafjarðar, og nyrzt er vegurinn yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar. Um Héraðið austan Lagarfljóts liggur Úthéraðsvegur, og frá Egilsstöðum norður fyrir fljót liggja vegir að minnsta kosti í þrjár áttir. Upp eftir, sunnan Lagarfljóts liggur vegurinn til Fljótsdals og annar vegur til Skriðdals. Það má því segja, að vegirnir liggi ekki eingöngu í allar höfuðáttir, heldur einnig, í flestar milliáttir um Austurland.

Ég hygg, að slík umferð sé sjaldgæf á sveitaheimili hér á landi sem á Egilsstöðum. Gildir það jafnt um alla tíma árs. Hygg ég, að ef litið er með sanngirni á þetta mál, þá sjái menn, að þessi brtt. mín hefir við svo sterk rök að styðjast, að sjálfsagt sé að samþ. hana.

Þá á ég VII. brtt. á sama þskj., við 14. gr. B. XV. 5, um það að veita Björgu Sigurðardóttur 1.000 kr. styrk til þess að kenna síldarmatreiðslu víðsvegar um land, eftir till. Búnaðarfélags Íslands og Fiskifélags Íslands, og gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar frá. Kvenmaður þessi fékk 1.000 kr. styrk í yfirstandandi fjárl., og hefir nú ferðazt um. Austurland og haldið námskeið. Ég get af fullri sannfæringu og reynslu sagt það, að þessi kennsla hefir borið hinn bezta árangur, og mun það margra manna mál, að mikil sé þörf slíkrar kennslu, og efast ég ekki um, að stúlka þessi sé vel starfi sínu vaxin, enda mun hún geta fengið meðmæli alstaðar, þar sem hún hefir fengizt við þessa kennslu. Að vísu má segja, að þingið í fyrra hafi litið svo á, að með þeim styrk hafi það sýnt þessari starfsemi viðurkenningu í eitt skipti fyrir öll, en á það ber að líta, að svo fremi að hér sé um gott og nytsamt starf að ræða, þá verður að stuðla að því, að það geti haldið áfram í sveitum. Ég held því, að þetta sé full sanngirniskrafa, að þessi litli styrkur sé veittur, þar sem þörfin er svo rík og hlutaðeigandi styrkþegi er framúrskarandi að áhuga og þekking á sínu sviði.

Þá á ég X. brtt. á sama þskj., ásamt hv. 5. landsk., um 1.500 kr. styrk til Ríkarðs Jónssonar til útgáfu myndabókar með verkum hans. Ætla ég, að þessi maður sé hv. þdm. svo kunnur, að ekki þurfi orðum um að eyða. Ríkarður er þjóðkunnur og viðurkenndur hagleiksmaður og að mörgu leyti sannkallaður listamaður. Eftir hann liggur fjöldi listaverka, og hann hafði hugsað sér að gefa út í ár, í tilefni af þessari merku hátíð, myndabók yfir verk sín, til kynningar fyrir landið og listiðnað þess hjá erlendum gestum í sumar. Upphaflega var það ætlun hans að gefa út þessa bók án styrks, en veikindi voru þess valdandi, að honum er það nú með öllu ókleift, enda er hann ekki enn kominn til heilsu til þess að stunda vinnu sína. Maðurinn á fyrir stórri fjölskyldu að sjá; og því má af líkum ráða, hvílík geysiáhrif slík veikindi hljóta að hafa á efnalega afkomu þessa manns. Þess vegna hefir hann nú sótt um þennan lítilfjörlega styrk, og er þess að vænta, að Alþingi sjái. sóma sinn í því að láta ekki þetta farast fyrir vegna þess, að það telji eftir þennan litla styrk. Ég vil biðja menn að athuga, hve geysimikið kynningarmeðal slík bók getur verið, og landi okkar og þjóð til hins mesta sóma út á við.

Þá á ég XII. brtt. á sama þskj. Er hún í tveim liðum og um alveg óskyld efni. Fyrri liðurinn er við 16. gr. 32., um það að hækka styrkinn til Sambands austfirzkra kvenna úr 300 kr. upp í 450 kr. Er það gert samræmis vegna við önnur kvenfélagasambönd á landinu. Ég flyt þessa brtt. að tilhlutun og eftir bendingu frá konu einni hér í bæ, sem sýndi mér fram á, að úr því hv. fjvn. hefir farið þessa leið að veita slíka styrki, þá er með öllu óskiljanlegt, hvers vegna Samband austfirzkra kvenna á að fá lægri styrk en hin. Það má vel vera, að það sé færra fólk í þessu félagasambandi en t. d. í Sambandi norðlenzkra kvenna, en fólksfjöldi skiptir í rauninni ekki miklu máli hér. Hitt er miklu stærra atriði, hvernig staðhættir eru, því að þeir ráða mestu um þá erfiðleika, sem slíkur félagsskapur á við að búa á hverjum stað: En á Austurlandi er víðast mjög erfitt um samgöngur, svo að miklum örðugleikum verður einatt bundið að ná sambandi milli félagsdeildanna. Af þessu má sjá, að fúll sanngirni mælir með því að veita sambandinu þennan styrk, og láta það að því leyti njóta jafnréttis við önnur sambönd kvenfélaga hér á landi.

Þá kem ég að 2. liðnum, sem er um að gera laxastiga í Lagarfoss. Hér er prentvilla í þingskjalinu, og geri ég því ráð fyrir, að ef ekki verður hægt að leiðrétta hana, þá muni ég taka till. aftur til 3. umr. Í till. stendur 2/3 kostnaðar, en á að vera 1/3 en upphæðin á að vera 6.000 í stað 2.000, sem stendur í till. Enda þótt þetta komi frekar til umr. síðar, þá þykir mér þó rétt að fara nokkrum orðum um málið almennt. Það er að vísu svo, að þessi fjárveiting er ekki í samræmi við hliðstæðar fjárveitingar hingað til, en þess er þá að geta, að hér stendur nokkuð öðruvísi á. Rannsókn hefir leitt það í ljós, að fyrir ofan Lagarfoss eru sennilega mjög góð skilyrði fyrir laxauppeldi, en hitt er ósannað, hver árangur yrði af því að gera Lagarfoss laxgengan. Hinsvegar er mjög erfitt að fá fé í þessum dreifðu byggðum til þessa fyrirtækis, Hér er þó um að ræða stórkostlega tilraun til þess að auka veiðiskap í einu blómlegasta búnaðarhéraði landsins, en óvíst um árangur. Þess vegna mælir öll sanngirni með því, að í þessu tilfelli leggi ríkið eitthvað ríflegar af mörkum til þessa fyrirtækis. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta, en vænti þess, að d. sýni á sínum tíma fullan skilning á þessu mikilsverða máli.

Þá á ég XVI. brtt., við 18. gr. II. C. 8., um að veita öldruðum kennara, Einari Hávarðssyni, 150 kr. sem eftirlaun. Þessi maður hefir verið kennari yfir 30 ár, en hefir ekki rétt til eftirlauna samkv. núgildandi lögum. Hann er nú aldurhniginn, þrotinn að heilsu og kröftum og eignalaus með öllu. Ég tel því mjög sanngjarnt, að honum sé veittur þessi litli styrkur í viðurkenningarskyni fyrir gott og vel unnið starf í þágu þjóðfélagsins.

Þá á ég brtt. XVIII. á sama þskj. ásamt hv. þm. Seyðf., um það, að ríkisstj. veitist heimild til þess að greiða félaginu Eiríki rauða halla þann, sem það beið af Grænlandsförinni í sumar, með 5.000 kr. Hygg ég, að með lögunum frá í fyrra hafi þessu félagi í rauninni verið gefið fyrirheit um það, að ef það vildi hefjast handa um útvegun sauðnauta, þá skyldi það fá greiddan kostnaðinn úr ríkissjóði. Enda var það svo, að ríkissjóður greiddi félaginu þennan lögákveðna styrk, 20 þús. kr., strax við heimkomu Gottu. Árangur þessarar farar mun hafa verið töluvert betri en búizt var við almennt, því að þeir komu með sex kálfa, en hitt kemur ekki því máli við beint, þótt svo óheppilega hafi tekizt til með þessa kálfa, að þeir eru nú flestir dauðir af bráðafári, veldur þar sennilega miklu um ónóg þekking á því, hversu skuli með dýrin fara í uppeldinu. En hitt virðist engin sanngirni, að láta félagið eitt bera hallann af því að hafa ráðizt í þetta þjóðþrifaverk, þó að það að lokum hafi ekki borið þann árangur, sem æskilegt væri. Mer virðist tæplega vansalaust af Alþingi að láta félagið ganga með skarðan hlut frá borði. Ég skal benda á, að félagið mun hafa í hyggju að gera út annan leiðangur bráðlega, ekki í sama tilgangi og hinn síðasta, heldur til þess að hagnast á honum, ef unnt er. Síðasti leiðangur var farinn í því augnamiði að ná hingað lifandi sauðnautum, sem og tókst, svo sem kunnugt er. Félagið mun ekki sækja um styrk til að gera út næsta leiðangur, því ætlunin er að láta hann bera sig fjárhagslega. Full ástæða er til þess að ætla, að slíkur leiðangur gefi borgað sig fjárhagslega, en þá verður sennilega ekki skeytt um það að ná í lifandi sauðnaut hingað. Ber þó á það að líta, að ærin nauðsyn er á að fá hingað nokkra kálfa í viðbót, því að það mun mála sannast, að þessi eina kvíga, sem nú er á lífi, muni aldrei verða til mikilla þjóðnytja, ef ekki verður fengið eitthvað með henni. Það er ekki gott að kvígan sé ein, fremur en aðrar skepnur jarðarinnar, og sýnist því ærin ástæða til þess að útvega henni eitthvað til hugnunar á lífsleiðinni. Ég verð að segja þetta eins og það er, enda virðist þetta sjálfsagt, bæði frá hagsmunalegu og mannúðarlegu sjónarmiði. Að þessu athuguðu vil ég mega vænta þess, að hv. þdm. taki vel í þessa málaleitun.

Þá kem ég að brtt. XIX. á sama þskj., um að lána Finni Jónssyni málara allt að 10 þús. kr. til þess að byggja sér vinnustofu, gegn tryggingu, er stj. tekur gilda. Ég verð að líta svo á, að það sé góðra gjalda vert að styrkja listamenn okkar, þótt þeir séu tiltölulega fleiri en hjá öðrum þjóðum. Ég tel það góðs vita, að listir skuli vera í uppsiglingu hjá þjóð vorri, og ég tel afdráttarlaust, að listamenn okkar séu alls góðs maklegir. Í þessu tilfelli er ekki um að ræða beinan styrk, heldur húsnæði, þar sem þessi listamaður geti unnið að málverkum sínum og geymt þau svo, að þau séu óskemmd.

Það er ekki vafi, að verk þessa manns þola mjög illa léleg húsakynni. Og ég hefi fulla trú á því, að þessi hjálp þurfi ekki að baka ríkissjóði nein útgjöld. Ég hefi það álit á manni þessum, að hann sé svo mikilhæfur starfsmaður, að hann sé að fullu fær um að endurgreiða þetta áður en langt líður. En honum er nauðsyn að fá þessa vinnustofu til þess að geta notið sín við þessi liststörf.

Þá á ég að síðustu XX. brtt., um að heimila ríkisstj. að ábyrgjast allt að 80 þús. kr. lán til rafmagnsstöðvar fyrir Neskaupstað, gegn þeim tryggingum, sem stj. telur gildar.

Það eru nú í fjárlagafrv. svipaðar heimildir sem þessi, sem fjvn. þessarar d. leggur til að verði felldar, og hefi ég ekkert um það að segja. Ég geri ráð fyrir, að ef þær verða teknar út af fjárl., þá sé engin von um, að þessi brtt. komist inn. En þó vil ég taka það fram, að hér stendur nokkuð öðruvísi á en venjulega, þegar um slíka ábyrgðarheimild er að ræða. Hér er það svo, að það er búið að reisa rafstöð fyrir 1½ ári og hefir hún starfað þann tíma. Sú reynsla, sem fengizt hefi, bendir til þess, að stöðin beri sig fyllilega. En ég fer hér fram á ábyrgð, vegna þess að þau lán, sem tekin voru, voru mjög óhagkvæm. Nokkur hluti lánsins var tekinn til 10 ára og með venjum bankavöxtum, en nokkur hluti þess var víxill, sem framlengja þarf árlega eða tvisvar á ári, og er það með okurvöxtum.

Það, sem vinnst með þessari till., er að gefa kaupstaðnum kost á að fá hagkvæmara lán en nú er um það fé, sem stendur í byggingunni. Hér er ekki verið að ýta undir menn að ráðast í fyrirtæki, sem óvíst er hvernig fari. Það er búið að framkvæma það. Ég lít því svo á, að þótt engar aðrar ábyrgðarheimildir séu veittar, megi veita þessa, þegar svo sérstaklega stendur á. En fari svo, að þær ábyrgðarheimildir, sem nú er í fjárlfrv., verði þar áfram, þá er það hreinasti misréttur, sem ekki á sinn líka, ef þessi kemst ekki þar inn.

Hér er aðeins farið fram á ábyrgð gegn þeirri tryggingu, sem stj. tekur gilda, og ábyrgðarupphæðin er ekki nema 80 þús. kr. Það er heldur ekki víst, að þurfi að nota þessa heimild.

Ég hefi þá minnzt á allar þær brtt., sem ég hefi. Ég legg það undir dóm hv. d., hvernig hún tekur þeim. Ég vona, að flestir geti gengið inn á það, að þær séu sanngjarnar, en læt skeika að sköpuðu um það, hvort hv. d. getur fallizt á þær.