09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

1. mál, fjárlög 1931

Halldór Steinsson:

Ég á hér eina litla brtt. við 15. gr. 17. lið. Það er styrkur til séra Árna Þórarinssonar á Stóra-Hrauni. Í Nd. kom fram styrkbeiðni viðvíkjandi þessum manni, sem fór fram á 2 þús. kr. ritstyrk á ári, en til vara 1.500 kr., en á síðustu stundu kom fram brtt. þess efnis, að styrkurinn yrði færður niður í 600 kr. Það varð því samkv. þingsköpum að bera þá till. upp fyrst. Var hún samþ., og þar með útilokað, að hinar kæmust að. Það var hv. þm. Mýr., sem flutti þessa brtt., er samþykkt var, og hann lýsti sjálfur yfir í hv. Nd., að hann hefði borið till. fram með þeim skilningi, að hún væri varatill. við brtt. Má því segja, að það hafi verið nokkurskonar slys að samþ. þessa brtt., því að það er enginn vafi, að ef varatill. um 1.500 kr. hefði komið til atkv., hefði hún náð samþykki.

Séra Árni Þórarinsson er maður kominn á áttræðisaldur og hefir gegnt störfum í erfiðu prestakalli í 45 ár. Liggur því í augum uppi, að það geta ekki liðið mörg ár svo hann ekki segi af sér prestskap. Væri sjálfsagt búinn að því fyrir löngu, ef hann hefði séð sér fært að draga fram lifið án embættis. En því er miður, að margir embættismenn hér á landi verða oft og tíðum að hanga í embætti eftir að þeir eru, bæði vegna heilsuleysis og elli, orðnir ófærir til embættisstarfa.

Um þennan mann er það að segja, að hann er sérstaklega vel gáfum gæddur. Hann er mikill fróðleiksmaður, bæði á forn og ný fræði. Hann kann urmul af þjóðsögum, bæði nýrri og eldri, ritar allra manna bezt og fágaðast íslenzkt mál. Honum er einkennilega sýnt um það að færa hugsanir sínar og athuganir í aðgengilegan búning.

Séra Árni hefir því leitað til þingsins um ofurlitla styrkveitingu, til þess að geta látið samtíð sinni í té fróðleik sinn. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þeim litla styrk, sem hér er farið fram á, verður vel varið. Ég er þess fullviss, að sá fróðleikur, sem mundi fást fyrir styrkinn, yrði ekki sérlega dýru verði keyptur.

Það vill svo til, að ég stend hér ekki einn uppi með þessa skoðun mína, því að auk þess sem séra Árni er héraðskunnur maður fyrir fróðleik sinn og framsetningarlist, þá er mér óhætt að fullyrða, að hann er viðurkenndur af mörgum af fremstu menntamönnum þessa lands. Því til sönnunar vil ég lesa upp meðmæli frá einum helzta menntamanni okkar Íslendinga, Sigurði Nordal. Með leyfi hæstv. forseta:

„Það er öllum kunnugt, sem nokkuð þekkja til séra Árna prófasts Þórarinssonar á Stóra-Hrauni, að hann er allra manna skemmtilegastur í viðræðum; fer þar saman víðtækur fróðleikur, glögg athugun, hugsanafjör og frásagnarlist. Hefi ég oft hugsað um, hvílíkur skaði það væri, ef engar minjar sæust eftir slíka hæfileika í bókmenntum vorum. Nú er mér tjáð, að séra Árni sæki um lausn frá prestsembætti með fullum launum, bæði vegna þess, að hann gerist þreyttur að gegna þessu umsvifamikla starfi og langar til þess að fá næði til þess að skrásetja eitthvað af endurminningum sínum og öðrum fróðleik. Mér er sérstaklega ljúft að gefa þessari umsókn hans beztu meðmæli mín, ekki einungis vegna verðleika prófasts fyrir langt embættisstarf, sem aðrir eru færari að meta en ég, heldur einkanlega vegna þeirra ritstarfa, sem ég óska og vona, að honum endist þá enn tími til að inna af hendi.

Reykjavík, 8. febrúar 1930.

Sigurður Nordal.“

Annar kunnur maður, Lárus H. Bjarnason, segir, með leyfi hæstv. forseta: „Séra Árni er ekki aðeins mikill fróðleiksmaður á þjóðlega hluti, heldur segir hann manna bezt frá, þeirra er ég þekki“.

Ég læt mér nægja að vísa til þessara tveggja ummæla frá þessum landskunnu mönnum. En mér er kunnugt, að hægt var að fá meðmæli þessu til stuðnings frá miklu fleiri vel þekktum mönnum en þessum. Að öllu þessu athuguðu verð ég því að álíta, að þessi styrkur væri sízt fyrir minni verðleika veittur en margir aðrir styrkir í fjárl. til ritstarfa, sem eru talsvert hærri. Og þess vegna þori ég ófeiminn að bera þessa till. fram, og vona, að hv. d. sjái, að hún er réttmæt.

Ég ætla svo ekki að fara að gagnrýna sérstaklega aðrar till. eða frv., þó að ég hafi ýmislegt að athuga við nokkra liði. Þó er ein lítil till. frá fjvn., sem ég get ekki stillt mig um að minnast ofurlítið á, úr því að ég stóð upp á annað borð. Það er 7. brtt. n. við 14. gr., kennsla í söng, að liðurinn falli niður. Mér finnst satt að segja hafa lagzt heldur lítið fyrir kappann að ráðast á þennan litla styrk. Þessi styrkur er veittur til þess að láta prestaefnum í háskólanum í té kennslu í að tóna. Ég tel þessum styrk vel varið, og þó að miklu hærri væri. Það er nú einu sinni svo, að tónið er annar aðalhluti guðsþjónustunnar, og sjálfsagt sá liðurinn, sem að margra dómi ekki er minna um vert en ræðuna. Ég held það sé óhætt að segja, að þær kirkjur, þar sem lélega er tónað, þótt ræðan sé sæmileg, þær muni ekki vera vel sóttar. Þess vegna finnst mér fyrir mitt leyti mikið gefandi fyrir það, að prestar ryðji ekki úr sér fyrir altari mjög miklu af fölskum tónum. Og ef hægt er að koma í veg fyrir það með kennslu í tóni við háskólann, sé ég ekki annað en að þeim peningum sé vel varið. Ég vil því fastlega mælast til, að hv. d. samþ. ekki þessa till. fjvn.