27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

86. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Magnús Torfason):

Ég vil geta þess, að n. var það vel ljóst, að um þessa einu helgi var að ræða og ekki fleiri. Hér er ekki verið að setja neitt framtíðarlögmál. Þess vegna fannst sumum nm. það rétt að reyna þetta, til þess að vita, hversu það gæfist í þetta eina skipti. Og í fyrra heyrðust háværar raddir um það, að láta kosningar fara fram á sunnudegi.

Hv. þm. Dal. gerist nú næsta guðhræddur, og er það vel farið, því að guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg, ekki sízt nú á hinum síðustu og verstu tímum. En þó að ég sé ekki biblíufróður maður, vil ég samt neita því, að sunnudagur sé síðasti dagur vikunnar. Annars hélt ég, að hér þyrfti ekki að rísa neitt trúarbragðastríð í deildinni, þar sem hér eru viðstaddir fyrrum prestur á Hesti, fyrrum dócent í guðfræði og ennfremur fyrrum kandídat í guðfræði. Þessir menn hafa ekkert við þessa till. að athuga, og þess vegna ætti okkur að vera óhætt að samþ. till. frá trúarbragðalegu sjónarmiði séð.