27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

86. mál, kosningar til Alþingis

Einar Jónsson:

Mig skal ekki furða, þótt þingtíðindin verði stundum furðulega þykkur bunki, þegar um ekki stærra mál en þetta hafa þegar verið haldnar 10–20 ræður. Hér er um það eitt að ræða, hvort kjósa skuli á laugardegi eða sunnudegi. Ég býst nú við, að flestum standi nokkurnveginn á sama, hvor dagurinn er valinn, svo að hv. þm. ætti að nægja að segja álit sitt með jái eða neii við atkvgr. En þetta hefir farið á annan veg. Mönnum hefir ekki einu sinni nægt að ræða efnishlið málsins, heldur hafa þeir jafnvel farið út í biblíuskýringar, guðfræðislestra og annað þvílíkt. Þetta sýnir ljóslega, hversu löngunin til þess að vaða út fyrir efnið og tala sem mest er rík í hugum þm.

Hæstv. forsrh. kvað sveitamenn heldur vilja kjósa á sunnudegi en laugardegi. Ég er nú einn af þessum sveitamönnum, sem allan minn aldur hefi alið í sveit, og get því fremur öðrum tekið undir það með hv. þm. Dal., að sveitafólk vilji heldur kjósa á laugardegi en á sunnudegi. Sunnudagurinn á að vera hvíldardagur fyrir fólkið, og ég get fullyrt það, að sveitamenn kunna því mjög illa að vera skyldir til þess að vinna tiltekin aukastörf á sjálfan hvíldardaginn. (LH: Það eru til hross í sveitunum). Ég veit, að hv. þm. V.-Sk. gerir það meira af þægð við hæstv. stj. að fylgja þessari till. heldur en að hann skorti hest undir hnakk, þó skreppa þurfi að heiman, og að hann meini þetta í raun og veru ekki. Hann kemst að því leyti í líka aðstöðu og hv. 1. þm. Skagf. sagði um hv. 2. þm. Árn., þar sem hann komst svo heppilega að orði, að honum — 2. þm. Árn. — væri annara um stj. en henni um hann.

Ég tel svo, að eigi þurfi fleirum orðum um þetta mál að eyða. Aðeins er eftir að skera úr málinu með jái eða neii. Allar þessar umr. hafa verið algerlega óþarfar frá upphafi, og verða það eigi síður, þó áfram sé haldið.