09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Baldvinsson:

Ég hefi borið fram 4 brtt. á 3 þskj. Eitt þeirra er að vísu ókomið, en ég ætla samt að minnast nú á till., til þess að lengja ekki umræður um of. Sé ég, að nú muni samtök um að flýta frv. og láta umr. ekki standa í marga daga, sem oft vill verða, þar sem margir vilja láta rök sín sjást í þingtíðindunum, en hirða minna um, þótt fáir hlusti á. Ætla ég og, að langar umr. hafi oft lítil áhrif, því að margir munu áður hafa gert upp við sig, hverjum brtt. þeir ætla að greiða atkv.

Fyrst er þá brtt. á þskj. 454, XL, 1800 kr. fjárveiting til dr. Guðbrands Jónssonar til þess að semja íslenzka miðaldamenningarsögu. Það er sami styrkurinn sem stendur í fjárl. 1930, en verið felldur niður af stj., eins og margir aðrir styrkir, er staðið hafa lengi í fjárl. Þessi styrkur hefir staðið þar í allmörg ár, og þykist ég því ekki þurfa að mæla lengi með honum. Það er kunnugt, að dr. Guðbrandur er afkastamaður mikill og vel að sér í þessum fræðum; sennilega fróðastur þeirra manna, er vér höfum nú. Vænti ég þess, að hv. d. samþykki þessa till., sem hefði átt að standa í stjfrv. samkv. hefð.

Þá er önnur brtt. mín á þskj. 457 við 15. gr., styrkur til Árna Kristjánssonar píanóleikara til þess að fullkomna sig í píanóleik. Þessi maður er af þeim, sem honum hafa kynnzt, talinn vera einhver hinn snjallasti og efnilegasti leikari á píanó, sem vér eigum, og er sagt, að hann muni verða hinn mesti snillingur, ef hann á kost á að fá næga æfingu og kennslu. Svo mikið er látið af leikni hans og snilld, að hinir vandlátustu söngdómarar í Reykjavík, Sigfús Einarsson o. fl., hældu honum á hvert reipi fyrir hljómleika hans í haust. Meðmæli hans skal ég ekki lesa, því að ég geri ráð fyrir, að hv. fjvn. hafi kynnt sér þau. Það var einungis slysni, að þessi styrkur var ekki samþykktur í hv. Nd. Þar eru nægilega margir kunnugir högum hans og snilld til þess að styrkurinn hefði verið samþ., ef ekki hefði viljað til óhapp í atkvgr., sem ég hirði ekki að rekja hér. Árni sótti um 3.000 kr., en brtt. fer fram á 2.000 kr., og er það ekki mikið til þess að lifa af, þegar komið er í framandi land. En þyki þessi upphæð of há, þá hefi ég flutt varatill., 1.500 kr. Væri honum það þó nokkur styrkur og betri en ekki, og auk þess væri honum miklu auðveldara að fá lán, ef hann gæti sýnt, að hann hefði fengið opinbera viðurkenning, sem þessi styrkur væri. Ég skal ekki orðlengja um þetta, en skiljast við till. með þeim venjulega formála, að ég er vongóður um, að á þetta verði litið eftir málavöxtum. Þá er till. óhætt.

Þriðja brtt. er á þskj. 454, XVII, við 18. gr.: Til Jónínu Marteinsdóttur hjúkrunarkonu, 300 kr. Þessi kona hefir fengizt við hjúkrun í nálega 20 ár, en er nú orðin óvinnufær og hefir ekki miklu úr að spila, eins og verða vill um marga einstæðinga. Hún hefir beinlínis slitið sér út fyrir aðra, þó að hún hafi ekki verið sérstaklega lærð í upphafi, en fyrir 20 árum voru ekki til margar lærðar hjúkrunarkonur eða yfirsetukonur. Hafa margar heiðurskonur þegar fengið viðurkenning starfs síns úr ríkissjóði, og hygg ég, að hún sé hennar ekki síður makleg en aðrar. Og þó að margir styrkir komi á þessa grein þá eru upphæðirnar svo lágar, að það munar ríkissjóð litlu.

Þá hefi ég borið fram brtt. við þá brtt. fjvn. að fella Guðm. Kamban niður úr 18. gr. og setja hann í 15. gr. Ég get fallizt á, að eigi sé rétt, að svo ungur höfundur sem Kamban sé settur í 18. gr., en hinsvegar álít ég, að hann eigi einskis í að missa við það að vera fluttur í 15. gr. Ég hefi því borið fram brtt. um, að honum séu veittar 2800 kr. í 15. gr. Þeir rithöfundar og aðrir, sem eru í 18. gr., fá dýrtíðaruppbót á launum sínum, og sú upphæð er nú 40%. 2800 kr. í 15. gr. svara því til 2.000 kr. í 18. gr.

Ég ætla mér ekki að fara að blanda mér inn í brtt. fjvn. eða einstakra manna, en mun sýna afstöðu mína til þeirra með atkv. mínu.