27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

86. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Thors:

* „Ræða yðar sé já eða nei; allt það, sem umfram er, er frá þeim vonda“. Ég skal því ekki deila lengi við hæstv. forsrh. um þetta mál. Vil einungis benda honum á það, að sé nokkur dagur ársins, sem vanheilagur blær hvílir yfir, þá er það einmitt kjördagurinn. Ber margt til þess. Menn eru þá að jafnaði í því skapi, sem lítt samrýmist guðrækilegum síðaboðum, án þess þó að menn aðhafist neitt ókristilegt í sjálfu sér. Og ef einhverjir sveitaþingmenn eru hér inni, sem ekki hafa verið hér í Reykjavík þegar kosningar fara fram, þá vildi ég ráða þeim til þess að gera það sem fyrst, til þess að sjá þann helgiblæ, sem hér hvílir yfir þessari athöfn. Hvað sem líður kosningum í sveitum, þá vildi ég segja það, að mér finnst næsta óeðlilegt, að sjálfur forsrh. skuli nú vilja yfirfæra þennan vanhelga blæ yfir á sunnudaginn. Annars vil ég undirstrika flest af því, sem hv. 1. þm. Rang. sagði í ræðu sinni um þetta mál, enda var það greindarlega mælt, svo sem vænta mátti. Ég álít, að hvort sem litið er á þetta frá sjónarmiði sveita eða kaupstaða, þá sé sjálfsagt að láta kosningu fara fram á laugardag, en alls ekki á sunnudag.