27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

86. mál, kosningar til Alþingis

Magnús Jónsson:

* Menn hafa talað um, að þessar umr. séu orðnar of langar. Ég er á alveg gagnstæðri skoðun. Þetta er afar alvarlegt mál og sýnir vel, hversu hættulegt það getur verið að bregða frá þingsköpum og leyfa afbrigði um mál, sem ekkert eru athuguð áður. Mér virtist í fyrstu, sem mál þetta væri fremur ómerkilegt. En umr. þær, sem fram hafa farið, og sérstaklega ræða hv. 2. þm. G.K., opnuðu augu mín fyrir því, að ef menn annars hirða nokkuð um hvíldardagshelgina, þá er ekkert það til, sem síður ætti að fara fram á helgum degi heldur en einmitt kosningarnar. Ég rifja upp fyrir mér, hvernig kosningar ganga bæði í sveitum og kaupstöðum, þar sem ég hefi átt kost á að sjá það með eigin augum. Og það verður ekki með rökum á móti mælt, að fátt er betur fallið til að vanhelga hvíldardaginn heldur en kosningaatíð, ekki af því, að nokkuð óheiðarlegt þurfi að fara fram í sambandi við kosningar, heldur af því, að þær eru geysilegt erfiði, ekki einungis fyrir þá, sem í kjörstjórnum eru og verða að sitja allan daginn, heldur og fyrir þá, sem sækja þurfa langar leiðir á kjörstað. Þetta ættu allir að geta skilið. Mér hrýs hugur við þeirri andstyggilegu hræsni, sem skein í gegnum ræðu hv. þm. V.-Húnv. Hann reyndi að setja á sig helgisvip og sagði, að ekkert óguðlegt þyrfti að gerast í sambandi við kosningar. Það hefir enginn sagt. En ég býst við, að helgisvipurinn fari af flestum, sem standa í kosningaatinu til lengdar. Sem dæmi má nefna, að réttadagar í vondum veðrum eru oft svallsamir og lítt fallnir til háleitra hugleiðinga, þó að engum detti í hug að segja, að framið sé óguðlegt athæfi. Líkt má segja um kosningadaginn. Auk þess hættir mörgum til þess að skvetta í sig vini, er á kjördaginn líður. Ég vil þess vegna beina því til hæstv. forsrh., að hann taki till. sína aftur. Það skiptir nefnilega litlu máli, þótt hér sé um aðeins einn kosningadag að ræða og að þetta eigi að vera til prófs. Hvaða nýr sannleikur halda menn að komi í ljós, þótt kosið sé í þetta sinn á sunnudegi? Hafa menn ekki séð kosningar fyrr og hvað þar fer fram? Ég hygg, að menn þekki þegar þann svip og blæ, sem hvílir yfir þessari athöfn. En hinsvegar óttast ég það, að með þessu sé verið að leita hófanna um það, hvort megi ekki algerlega færa kosningar yfir á sunnudagana. Ég hefi óljóst hugboð um, að sá þingvilji, sem stendur að baki þessari till., muni síðar meir hafa í hyggju að fá þessu algerlega breytt í það horf, að gera sunnudag að föstum kjördegi. Ef þessi grunur minn er réttur, þá er hér um stórt atriði að ræða. Það þarf að rísa á móti þessu þegar í upphafi svo kröftuglega, að menn þyrðu ekki að greiða þessari till. atkv. Annars vil ég segja það, að mér finnst slík till. sem þessi koma úr hörðustu átt frá hæstv. forsrh., sem er prestvígður maður, sem ég legg þó ekki mikið upp úr, og að því er ég bezt veit mjög kirkjurækinn maður, og sem ég hefði því sízt búizt við, að færi að kasta rýrð á hvíldardagshelgina með slíkum till.

Svo er eitt atriði, sem vert er að gefa gaum í þessu sambandi. Hér í Reykjavík er fjöldi fólks í búðum og í skrifstofum, sem að jafnaði notar sunnudagana til þess að komast burt úr bænum til þess að hrista af sér bæjarrykið. Mér finnst illa til fundið að eyðileggja þennan eina hvíldardag vikunnar fyrir þessu fólki. Ég sé, að hv. 2. þm. Reykv. kýmir. Það má vera, að hann sé ekki svo mikill vinur þessa fólks, að hann vilji unna því þessarar skemmtunar. Að menn taki hesta sína og ríði til kjörstaðar á sunnudegi, eins og hv. þm. V.-Sk. talar um, skiptir vitanlega engu máli í þessu sambandi; slíkt er hvorki bannað né boðið, en að Alþingi taki sig til og skipi öllum landslýð að inna þessa vinnu af hendi á helgum degi, slíkt er hin mesta óhæfa. Enda þótt þetta sé siður sumstaðar erlendis, t. d. í Þýzkalandi, þá er það engin sönnun þess, að við eigum að taka það upp. Við eigum að hafa það mikið andlegt sjálfstæði til að bera, að við þurfum ekki að apa alla ósiði eftir útlendingum. Mér er því illa við, að þessi till. komi til atkv., því ég er sannfærður um það, að fleiri ókostir hennar koma í ljós, ef hún er rædd ítarlegar.