01.03.1930
Efri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

86. mál, kosningar til Alþingis

Jón Jónsson:

Það hafa komið fram sundurleitar skoðanir á þessu, annarsvegar frá hæstv. forsrh. og hinsvegar frá hv. 3. landsk., hvenær sé heppilegast og bezt að hafa kjörfund í þetta skipti. En það er augljóst, að fyrir sveitirnar er langheppilegast, að kjördagurinn sé á sunnudegi, fyrst kosið er um þetta leyti árs, því að það er svo lítið vinnutap. (JÞ: Hafa sveitamenn nú ekki efni á að kjósa á virkum degi?). Flestir bændur eru nú fáliðaðir og mega illa fella niður verk, og kosningar verða því betur sóttar á sunnudegi. Hinsvegar gat ég ekki fallizt á það, sem mér fannst mega draga af frv. eins og það er nú, að kjörfund mætti setja fyrr. en á löglegum fundartíma á helgidögum. Þess vegna flyt ég í samráði við hæstv. forseta brtt. á þskj. 206. Það er ekki tilhlýðilegt að halda kjörfund um messutímann, en þar sem hæstv. forsrh. hefir lýst því yfir í heyranda hljóði, að kosningar fari fram um þann tíma dagsins, sem ekki fer í bág við messu, þá tek ég aftur brtt. á þskj. 206. En hvað því viðvíkur, sem hv. 3. landsk. var að tala um, að ef kjörfundur væri ekki settur fyrr en eftir messutíma (JÞ: Klukkan 3.), þá væri tíminn of stuttur, þá held ég, að það sé ekki svo mikil hætta á því. Ég hefi reyndar ekki eins mikla kunnugleika hér í Reykjavík og hv. 3. landsk., en mér hefir skilizt svo, að það mætti hafa kjördeildirnar svo margar sem vill. Margir bæjarbúar ganga ekki til hvílu fyrr en kl. 12, og getur kosningin því haldið áfram hvíldarlaust í 9 tíma, og þá getur kosningin komizt af, ef kjördeildir eru margar.

Það hefir komið fyrir, að kjörfundir hafa staðið lengur en til kl. 12, en verði kosið á sunnudegi, mun það ganga betur. Þá eru menn ekki bundnir við nein verk og geta því þyrpzt á kjörstaðinn meira en verið hefir. Vona ég því, að það komi ekki að sök. En sveitunum er þetta allmikið hagræði, og þar sem kosið er á messudegi og svo hagar til víðast í sveitum, að kjörstaðir eru á kirkjustað, þá mundu menn fyrst vera við messu, og fer vel á því að hafa verið við guðsþjónustu, áður en menn ganga að kjörborði.