07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

238. mál, útvarp

Ólafur Thors:

Ég vil leyfa mér að taka undir mál hv. þm. Dal. og óska þess, að málið verði tekið út af dagskrá. Það er náttúrlega engin ástæða til fyrir hv. forsrh. að rísa upp með þjósti, þó að þessi ósk komi fram frá nefndarhluta. Ég vil benda hæstv. forsrh. á það, að önnur mál hafa beðið miklu lengur hjá n., sem eru með stærstu málum þingsins, en þau eru flutt af Sjálfstæðismönnum, svo að það gerir ef til vill minna til í hans augum, þó að þau bíði. En ég vil aðeins nefna þetta til leiðbeiningar fyrir hæstv. ráðh., þegar hann segir, að n. sé að leika sér að því að draga málin, þegar hún hefir óvenjulega mörg mál til meðferðar, en öðrum n. fremur reynt að afgreiða þau eftir beztu getu.

Ég get líka bent á það, að þótt hv. meiri hl. n. hafi gefið út nál., sem í rauninni er litið annað en uppprentuð bréf frá ýmsum aðiljum, og þótt það nál. hafi verið gefið út fyrir 3–4 dögum, þá er ekki víst, að ástæða sé til að hallmæla minni hl. n. fyrir það, þótt nál. hafi ekki komið fram fyrr en þetta, því að eins og menn vita, er það svo síðari hluta þings, að löngum er setið á deildarfundum eða nefndarfundum mestan hluta dags.

Ég hygg, að það verði ekki til að seinka málinu, þótt hæstv. forsrh. sæki það ekki með neinu ofurkappi, að málið komi til umr. í dag. Hv. frsm. okkar, hv. þm. Dal., vill nú gjarnan hafa það svo, til þess að geta gefið út nál. og til þess, eins og aðrir frsm., að hafa tækifæri til að sannfæra sem flesta aðra hv. þm., svo að ég vil benda hæstv. atvmrh. á það, að ekki er hyggilegt að setja sig á móti þessu með neinum ofstopa, því að það er ekki nema gott að taka vel svona tilmælum, þegar þau eru ekki borin fram í neinum illum tilgangi.