07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

238. mál, útvarp

Sigurður Eggerz:

Ég vil gera örstutta aths. út af drætti þeim, sem talað er um, að hafi orðið á þessu máli hjá minni hl. fjhn. N. sendi frv. nokkrum aðiljum til. umsagnar, og meðan það lá hjá þeim, var vitanlega ekki unnið að málinu í fjhn. Það er ekki heldur lengra síðan en 1. apríl, að nál. var skilað frá hv. meiri hl., og ég get vel játað það, að þá var ég engan veginn búinn að átta mig á málinu. Það tekur nokkurn tíma að bera saman umsagnir og till. allmargra aðilja, sem ekki ber saman í nærri öllum atriðum, og mynda sér skoðun um það, hvaða leið sé heppilegust. Einnig verður að bera breyt. í frv. saman við gildandi lög, og síðast en ekki sízt að athuga, hvort ekki sé eitthvað fleira í þeim lögum, sem jafnframt sé ástæða til að gera breyt. á. Þetta mál er bæði mikið og flókið, og sannleikurinn er sá, að minni hl. fjhn. hefir sízt haft of mikinn tíma til samvizkusamlegrar athugunar á málinu. Það eru ekki allir þannig gerðir, að þeir geti sagt um það undir eins, hvað heppilegast sé að gera í einhverju máli, þegar þeir hafa séð, hvað það heitir. Aðrir þurfa að athuga málin, en það er vafalaust mjög góður eiginleiki að vera svona fljótur að átta sig á hlutunum, — eða að geta þá bara séð þá gegnum annara augu, þegar maður skilur þá ekki með sínum eigin.