07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

238. mál, útvarp

Sigurður Eggerz:

Það er ný kenning, sem hér kemur fram, að minni hl. megi ekki fá tíma til að athuga mál, þótt hann sé á móti því. Ef sanngjarnir menn sitja í hinu háa Alþingi og minni hl. nefndar getur fært góð rök fyrir sínum málstað, þá veit ég ekki betur en að það sé algengt, að hann komist í meiri hl. í þinginu. (HJ: Er hv. þm. nú að játa, að hann hafi verið búinn að ákveða að vera á móti málinu, áður en hann kynnti sér það?). Ég skil ekki, hvað þessi hv. þm. er nú að fara. Hann er sjálfur nýbúinn að staðfesta það, sem rétt er, að ég er á móti 3 höfuðatriðum þessa máls, en hefi ekki tekið afstöðu til annara breyt. –Hæstv. forsrh. fór að tala um málþóf. Það er nú komið svo, að hæstv. stj. þolir enga mótstöðu. Einræðið er orðið svo mikið, að ef einhverjum dettur í hug að hafa á móti einhverjum till. hennar, er strax farið að tala um málþóf. Rússneski blærinn á stjórnarfarinu, kúgunarandinn er orðinn svo mikill, að stjórnarandstæðingar mega ekki einu sinni láta í ljós skoðanir sínar. En það er óvíst, hversu lengi þjóðin beygir sig undir þetta. Það getur farið svo, að hæstv. forsrh. og liðsmenn hans fái að komast að raun um það áður en lýkur, að til eru hér á landi menn, sem ekki láta kúgast.