07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

238. mál, útvarp

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Hv. þm. Dal. talaði um það, að ég hefði talað lengi. Ég get vel trúað því, að hv. þm. hafi fundizt það, því ég talaði um kjarna málsins, en það er honum ekki lagið. Ég talaði hér fjórðung stundar, en hv. þm. talaði heila klst. og að mestu leyti um efni, sem er óviðkomandi því máli, sem hér er til umr. Hv. þm. er alltaf að flytja nákvæmlega sömu ræðuna, hvort sem hún á við eða ekki. Hv. 2. þm. G.-K. má gjarnan spila undir, þegar hv. þm. Dal. talar. Ég er viss um, að þessum hv. þm. mistekst, þótt þá vanti ekki stærðina. En það mun mega segja, að vitsmunir og rökfimi þessara hv. þm. fari ekki eftir stærðinni.

Hv. þm. Dal. sagði, að það væri mein, að hann hefði ekki getað skilað neinu nál. um málið. Ég verð að segja, að þar hefir heilsa svikið hug, að hann skyldi ekki geta það. Hv. þm. hefir ekki einu sinni komið fram með brtt. Það ætlar hann sér víst að geyma þangað til við 3. umr.

Meiri hl. ber hér fram nokkrar brtt. með nái. á þskj. 415, en mun geyma smáaukatriði til 3. umr.

Ég get strax minnzt á eitt atriði þessa máls, og það er fjölgun manna í útvarpsráði. Ég get fallizt á það, sem stendur í nál. meiri hl., að vafasamt sé, að rétt sé að fjölga mönnum í útvarpsráðinu. Það getur jafnvel farið svo, að ég greiði atkv. á móti því. Meiri hl. n. leit svo á, að þetta væri ekki neitt stórt atriði, og kom því ekki fram með neina brtt. við það. Mönnum í útvarpsráðinu verður hvort sem er fjölgað áður mjög mörg ár líða, en ég get ekki séð neitt á móti því, að það megi bíða. Útvarpsráðið í Danmörku er alltaf að fjölga mönnum. Þeir eru nú víst orðnir 15. (SE: Þarna kemur það). Mönnum verður líka fjölgað í útvarpsráðið hér, en ég get vel fallizt á, að það megi bíða. Þetta skiptir ekki svo miklu máli. (MG: Því kom hv. þm. þá ekki með brtt.?) Kostnaðurinn er heldur ekki svo mikill, að hann skipti hér máli. (MG og ÓTh: Hver laun hefir útvarpsráðið?). Allt glamur hv. þm. um skoðanafrelsi skiptir hér ekki miklu máli.

Hv. þm. minntist á útvarpsmálið sem eitthvert mesta menningarmál þjóðarinnar. Öll hans ræða virtist þó vera móti málinu, því hann var alltaf að tala um að aukinn kostnað. En kostnaðurinn getur orðið sá sami, þótt skipulagið verði áfram svo sem það nú er. Þetta hlýtur hv. þm. að geta skilið.

Símaverkfræðingurinn er sá maður, sem samkv. sínu erindisbréfi á að hafa alla umsjón með þessum málum; hlýtur hann að taka svo marga menn með sér, sem þörf krefur, og ég held, að sá maður, sem. á að hafa það verk með höndum, sé þegar fyrirhugaður. Hv. þm. getur ekki búizt við því, að útvarpsstöðin, sem á að standa uppi á Vatnsendahæð, verði starfrækt af mönnum þeim, sem eru við símann nú. Það verður að skipa nýja starfsmenn, sem landssíminn útvegar. Útvarpsreksturinn getur vel farið saman hjá 1– 2 mönnum, þótt útvarpið og landssíminn séu aðskilin. Útvarpsstjóri og landssímastjóri geta komið sér saman um, hvernig rekstrinum skuli skipt á milli þeirra.

Þá er það útsending veðurskeyta. Ég held, að það heyri miklu frekar undir útvarpið en landssímann. (HH: Þetta er misskilningur; það er miklu betra, að það heyri undir landssímann). En til þess að styrkja aðgreininguna betur voru ákvæði þess efnis tekin í þetta frv.

Þá fannst hv. þm. Dal. undarlegt að leita umsagnar símaverkfræðingsins um þetta mál, þar sem leitað hefði verið umsagnar landssímastjóra, sem eigi að hafa þetta mál með höndum. Mér finnst það ekkert undarlegt að leita umsagnar þess manns, sem hefir alla tekniska starfsemi landssímans með höndum, og hefir því bezta þekkingu á hinni teknisku hlið útvarpsins.

Þá má benda á sendingu veðurskeyta. Nú er það svo, að veðurstofan sendir skeytin út sjálf, og er því síður en svo, að það sé höfuðástæðan fyrir því að taka útvarpið undan yfirráðum landssímastjóra.

Hv. þm. talaði um einkasölu á útvarpstækjum og sagði þá sömu einokunarsöguna, sem hann hefir sagt hér í hverju einasta máli, þar sem hann hefir getað komið henni að. Það eina, sem hann sagði, var, að hann væri vanur að spyrja sjálfan sig við slík tækifæri, hvaða ástæða væri til að taka upp einkasölu. Ég er búinn að benda á, hvaða ástæða sé hér veigamest. Hún er sú, að miklu hægara er að innheimta gjöldin af tækjunum með þessu fyrirkomulagi. Einn af merkustu mönnum í útvarpsráði Dana lét einu sinni fara fram rannsókn í einu héraði, og kom þá í ljós, að 12% af útvarpsnotendum höfðu sloppið við gjöldin. Ef einkasala er á þessum tækjum, er miklu betra að hafa eftirlit með því, að gjöldin séu innheimt. En það er sjálfsagt, að allir notendur greiði það gjald, sem ákveðið er. Einkasala tryggir mönnum líka betri tæki. Þessu sneri hv. þm. við. Hann taldi, að tækin mundu verða verri. Ég skil ekki þessa röksemdaleiðslu hans. Hvernig getur hv. þm. búizt við því, að útvarpsráðið flytji inn vond tæki? Því betri sem tækin eru, því fleiri kaupa þau og því meira kemur inn í gjöldum af þeim.

Þá er mjög varlega farið í það að leggja á móttökutækin, og rennur sá hagnaður til útvarpsins. Þeir, sem selja þessi tæki nú, hafa þau í umboðssölu og taka því sín umboðslaun, sem munu vera allmiklu hærri en útvarpsráðið mun leggja á tækin. Vitanlega eiga þessir umboðssalar nokkuð fyrir starf sitt, en þó munu þeir leggja meira á þau en því nemur, og því verða þau nú dýrari en nauðsynlegt væri.

Ég vil að lokum undirstrika það, að útvarpsmálið er eitt af okkar stærstu menningarmálum, og get ég því ekki horft í það, þó það hafi nokkurn kostnað í för með sér. Hv. þm. Dal. virtist vera móti málinu vegna kostnaðarins. En hvernig á að koma fram menningarmáli án þess það kosti þjóðina nokkuð? Það væri líka sami kostnaður, þótt lögin væru áfram eins og þau eru nú. Það er aðeins annar aðili, sem hefir reikningshald og útborganir. Hvort sem útvarpsráðið eða landssíminn hefir þetta með höndum, er það undir eftirliti atvmrn., og mun það sjá um, að það fari vel úr hendi.

Þá vil ég benda hv. þdm. á það, að meiri hl. n. ber fram brtt. við 6. gr., þar sem atvmrh. er heimilað að fela pósthúsum og póstafgreiðslum landsins að annast innheimtu á árgjöldum útvarpsnotenda samkv. reglugerð, en um það eru engin ákvæði í núgildandi lögum. Þessi tilhögun á innheimtu gjaldsins mun tíðkast með öðrum þjóðum, og virðist ekkert vera því til fyrirstöðu, að svo skuli líka vera hér. Um þetta má náttúrlega deila.

Þá vil ég vona, að hæstv. atvmrh., sem er yfirmaður þessara mála, sjái um, að það samstarf verði milli útvarpsráðs og landssímastjóra, sem báðum er fyrir beztu.

Í frv. er gert ráð fyrir, að þessi teknisku störf verði sameinuð á þann hátt, að útvarpsráðið semji við landssímastjóra, að hann hafi það með höndum, og þá þannig, að símaverkfræðingurinn, sem er yfirmaður allra slíkra mála samkv. erindisbréfi sínu, hafi einnig umsjón með þessu.

Ég skal geta þess, að þessi aðgreining á sér stað annarsstaðar, t. d. í Danmörku er samningur milli þessara aðilja um það, að annar starfræki fyrir hinn. Þannig vænti ég, að það verði einnig hér. En eins og lögin eru nú, eru stjórnartaumarnir í höndum hvors fyrir sig. Meginatriðið í frv. er að sameina þetta starf og svo einkasöluheimildin. Fjölgun manna í útvarpsráð skiptir ekki eins miklu máli. Það verður gert síðar, þótt það verði ekki gert nú.

Ég mun nú ekki, jafnvel þótt hv. þm. Dal. haldi enn einu sinni sömu ræðuna, telja hann svara verðan. Og ég mun ekki taka aftur til máls út af þessu máli, nema full nauðsyn sé til og eitthvað nýtt komi fram í málinu.