07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

238. mál, útvarp

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vildi aðeins benda á það, að till. þær, sem hér liggja fyrir, eða umsagnir þeirra manna, sem hafa sérþekkingu á þessum málum, hníga aðallega í þá átt, að það beri að hafa sameiginlegt verkfræðilegt eftirlit hjá landssímanum og útvarpsstöðinni. Þær upplýsingar, sem útvarpsstjóri hefir fengið í Danmörku, eru til stuðnings þessu áliti landssímastjórans, því að útvarpsstjórinn segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í Danmörku, þar sem þessi mál eru algerlega í höndum ríkisins, eins og gert er ráð fyrir að hér verði, er útvarpinu, með samningi milli útvarpsins og ríkissímans, tryggð verkfræðileg aðstað, eftirlit með rekstri stöðva, uppsetning tækja o. s. frv. — — — Var mér tjáð, að þetta gæfist vel“.

Útvarpsstjóri er hér alveg á sama máli og landssímastjóri og sá sérfræðingur, sem hefir verið til aðstoðar ríkisstj. í öllu, útvarpsmálinu viðkomandi, sem lýtur að „tekniskri“ hlið málsins, og ég held satt að segja, að sé eini maðurinn, sem hefir sérþekkingu á þessu sviði. Ég á hér við Gunnlaug Briem símaverkfræðing, sem meðundirskrifar álit landssímastjóra, svo að það virðist dálítið hjákátlegt, ef við færum að taka upp þá breyt. að aðskilja þessa verklegu hlið landssímans og útvarpsstöðvarinnar. Útvarpsstjóri gerir líka ráð fyrir því í sinni umsögn, að vélfræði- og verkfræðihlið þessa máls verði falið landssímanum, og þá er það næsta kátlegt, ef löggjafinn tekur aftur út úr lögunum, sem nú gilda, það ákvæði, sem í þeim stendur um það, að landssíminn skuli annast þessa hlið málsins.

Þá var það sérstaklega einkasölufyrirkomulagið, sem ég vildi segja nokkur orð um.

Eins og allir vita, þá er útvarp og smíði útvarpsmóttökutækja svo að segja á frumstigi. — Mér er kunnugt um það, að núna fyrir hálfum mánuði síðan komu frá amerísku firma útvarpstæki, sem eru bæði miklu betri og 25% ódýrari heldur en þau útvarpstæki, sem þessi sama verksmiðja bjó til og seldi í maí síðastl. ár. Það er allt á tilraunastigi um það, hvað bezt hentar, svo að það virðist ekki vera hyggilegt fyrir ríkissjóð að hleypa sér út í einkasölu. En allar forsendur fyrir því, að ríkið taki að sér einkasölu á þessum tækjum, hníga að því, að útvarpsstöðin myndi fá tekjur af henni. Já, það mætti fá tekjur af einkasölunni með því að þrengja upp á notendur tækjum, sem væru fyrir löngu úrelt orðin, svo og með því að selja tækin með 50–100% álagi. En ef reyna á að koma saman hagsmunum notenda og tekjum einkasölunnar, þá er það ekki mögulegt.

Ég er viss um það, að einkasölufyrirkomulag í þessu efni verður notendum ennþá verra en nokkur einkasala, sem við hingað til höfum haft. Þeir, sem flytja inn, verða að sætta sig við það, að tæki, sem þeir pöntuðu fyrir hálfu ári síðan og þá þóttu góð, verði orðin úrelt eftir 1/2 ár, og náttúrlega tapa þeir þá fé sínu, sem eru svo óforsjálir að flytja inn tæki nema rétt eftir hendinni. Auk þess eru ýmsir, sem vilja fá misjafnlega góð tæki, sumir vilja fá tæki, sem ná útvarpi frá svo að segja öllum hlutum jarðarinnar, eða a. m. k. hvaðanæfa úr þessari heimsálfu, en aðrir kæra sig ekki um betri tæki en að þau nái útvarpsstöðinni í Reykjavík.

Það má kannske segja, að það sé vandalítið að verzla með tæki, sem nái til Reykjavíkur, þeir menn geti notazt við eldri gerðir, þótt slík tæki verði eftir nokkur ár miklu einfaldari og óbrotnari og ódýrari en nú er. En þetta gildir ekki um þá, sem vilja fá góð nýtízku tæki og verða fyrir barðinu á einkasölunni, og ég held, að það sé miklu réttara að taka nokkru hærra árgjald af notendum heldur en að ætla sér að ná fé inn með þessu einkasölufyrirkomulagi.

Annars býst ég við, að þar sem hér er um stórkostlegt menntamál að ræða fyrir þjóðina, þá skeri ekki forráðamenn hennar tillög ríkissjóðs mjög við neglur sér, en styrki það árlega með hæfilegri fjárupphæð.

Það hefir verið nokkuð um það deilt, hvort rétt væri að hafa fleiri menn í útvarpsráðinu heldur en áður var. Reynslan í útlöndum hefir sýnt það, að eftir svona 2–3 ár hefir verið fjölgað um tvo, þrjá eða fjóra menn í útvarpsráðum. þannig var á yfirstandandi vetri fjölgað allverulega í útvarpsráði Danmerkur og sömuleiðis í útvarpsráði Þýzkalands. En fjölgunin hefir gengið í þá átt, að notendurnir hafa fengið meiri rétt til þátttöku í útvarpsráðinu en áður var. Það mun nú orðið svo víða, að þeir, sem nota útvarpið, skipa meiri hluta útvarpsráðs, og það sýnist mér ekki ósanngjarnt, því að fyrir þá er þetta fyrirtæki rekið; þótt það hafi verið rekið af ríkinu, þá er ekki ætlazt til þess, að ríkið hafi tekjur af því, eða að það sé í gróðaskyni gert, heldur er það gert til að auka menningu í landinu. Þess vegna er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem nota sér þetta til skemmtunar og menntunar, ráði nokkru um það, hverju er útvarpað á hverjum tíma. Ég er þar á annari skoðun en þeir hv. þm., sem talað hafa, en hinu neita ég ekki, að mér þykir notendum vera gert allt of lágt undir höfði og þeir hafi lítil áhrif á skipun ráðsins eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Þá tel ég það illa farið, að með þessu frv. er gert ráð fyrir, að bannað verði að búa til móttökutæki hér innanlands. Það er hrein heimska að banna með lögum innlendan iðnað. Þeir, sem standa að slíku verki, eru að hefta sjálfsbjargarviðleitni þjóðarinnar.