07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

238. mál, útvarp

Sigurður Eggerz:

Ég skal ekki þreyta hv. þdm. á langri ræðu. Mér finnst hv. þm. V.-Húnv. oft eiga mjög erfitt með að taka þátt í umr. án þess að blanda inn í þær ýmsum atriðum, sem ekki koma málinu við. Nú fann hann það upp í byrjun ræðu sinnar að líkja mér við „pólitískan hreysikött“. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir athugað, hvaða dýr þetta er. Hreysikötturinn er ákaflega grimmt dýr, sem gleypir slöngur og ýmsa smákalla með húð og hári, — rennur á þá líkt og hákarlinn á þá beituna, sem honum líkar bezt, og hv. þm. V.-Húnv. hefir kannske heyrt nefnda. Ég er ansi hræddur um, að hv. þm. hafi ekki lesið náttúrufræðina nýlega, fyrst hann gat fundið upp á þessari samlíkingu. Nema það hafi verið leikrit, sem okkur þm. var boðið á fyrir skömmu, sem ruglaði hv. þm. Það var kallað „Hreysikötturinn“, og ef það er meining hv. þm. að líkja mér við höfuðpersónuna í þeim leik, þá hefi ég ekki ástæðu til að kvarta. Það var sniðug manneskja, og allir hlutir snerust eins og hún vildi, svo að samlíkingin við hana getur ekki skoðazt öðruvísi en sem hrós.

Annars hefi ég litlu að svara. Mér skildist á hv. þm., að hann væri því ekki mjög fylgjandi, að fjölgað væri í útvarpsráðinu. Ég sé ekki heldur, að honum hafi tekizt að færa nein ný rök fyrir því, að nauðsyn væri á aðskilnaðinum frá landssímanum. Ég skal heldur ekki fara langt inn á einokunina. En þar var það eitt, sem hv. þm. V.-Húnv. gat ekki skilið, að þetta gæti vel orðið til þess, að tækin yrðu verri og dýrari. En það hefir alltaf sýnt sig, þar sem slík óeðlileg höft eru lögð á, að þessi verður reynslan. Þessi einkasala er að mínu áliti óþarfur fjárhagslegur snagi til að hengja á skoðanir einstakra manna. Og það er alltaf óhuggulegt að sjá pólitískar sannfæringar hanga á hinum og þessum fjárhagssnögum stj.