09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

238. mál, útvarp

Magnús Guðmundsson:

Það eru aðeins örfá orð. Ég get ekki séð, að hæstv. forsrh. hafi haft nokkra ástæðu til að segja það, að ef ekki væri tekin upp einkasala, þá yrðu seld úrelt tæki með uppskrúfuðu verði, þegar landssímastjóri hefir sýnt fram á, að tækin eru 30% ódýrari hér en í Danmörku. Þessi spádómur hæstv. ráðh. styðst því ekki við neitt, en er sagt út úr vandræðum.

Það fór sem ég hugði, að hæstv. ráðh. mundi svara því, að ekki mundi vera heimilt að búa til tæki hér innanlands, nema þá til eigin notkunar. Þetta vildi ég vita, og hefi fengið svar um það.

Viðvíkjandi sameiningu pósts og síma, þá lá það aðeins í mínum orðum, að það hefði verið stefna þingsins í fyrra að sameina störf, en nú er verið að sundra náskyldum störfum. En um meðferð á þeim lögum er það að segja, að brtt. frá mér kom í veg fyrir, að þau yrðu notuð mjög illa. Brtt. mín hefir einmitt haldið í skottið á stj. um þetta. Ég ætla engu að spá um pólitískan lit starfsmanna útvarpsins né fjölda þeirra. Það er ekki svo langt þar til útvarpsstöðin tekur til starfa, svo að ég get vei beðið þangað til með að sjá, hvernig þær dömur og þeir herrar, sem þar starfa, verða litir í pólitískum efnum.