14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

238. mál, útvarp

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er hingað komið frá Nd. Það er um það eins og ýms önnur, að það kemur harla seint frá þeirri hv. d., svo að tími var naumur til að athuga það. En með því að a. m. k. nokkuð af nm. hefir fylgzt með þessu máli í Nd., hefir meiri hl. treyst sér að gefa út nál. og leggja til, að frv. verði samþ.

Breyt. frá lögunum 1928 eru aðallega tvær. Hin fyrri er sú, að leggja yfirstjórn útvarpsins, fyrirtækisins alls, undir útvarpsstjóra og útvarpsráð.

Síðari breyt. er sú, að með þessu frv. er ákveðið, að útvarpsráðið taki einkasölu á öllum útvarpstækjum í sínar hendur. Þetta eru aðalbreytingarnar. Aðrar breyt. eru fremur smávægilegar og geta því síður valdið ágreiningi. En þessi tvö atriði eru það, sem valdið hefir ágreiningi í hv. Nd., og má búast við, að svo verði hér.

Um það atriði, að færa yfirstjórn útvarpsins í hendur útvarpsráði, hafa þeir aðiljar, sem hlut eiga að máli og bezt eiga að vera skynbærir í þessu efni, gefið umsögn sína, sem prentuð er sem fskj. við nál. meiri hl. í Nd. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi kynnt sér þau ummæli, þar sem greindar eru ástæður fyrir því, hvers vegna frv. er fram komið. Ég vil aðeins geta þess, að meiri hl. útvarpsráðs mælir eindregið með aðalbreyt., sem frv. gerir á gildandi lögum.

Önnur umsögn er hér frá símaverkfræðingi landsins. Um hana er það sama að segja, að hann mælir einnig með þeirri breyt., að yfirstjórn útvarpsins verði færð til útvarpsráðsins. Að síðustu kemur umsögn landssímastjóra. En hann leggur á móti þessum brtt.

Það má náttúrlega segja, að leikmenn í þessum efnum hafi lakari aðstöðu til ákvörðunar en fagmenn, og má því gera ráð fyrir, að þeir dragi ályktanir sínar að mestu leyti af umsögnum þeirra, sem málinu eru kunnugir og bezta hafa þekkinguna, að þeirra dómi. Og ég get sagt það fyrir hönd fjhn., að hún hefir í þessu tilfelli fallizt á það, sem fram kemur í umsögn símaverkfræðingsins. N. lítur svo á, að þessi maður hafi töluvert mikla reynslu í þessu efni, að svo miklu leyti sem hér kemur til greina, þótt hann að vísu sé ekki sérfræðingur beinlínis á þessu sviði, heldur nokkuð öðru. En þess ber að gæta, að þessi maður hefir um langt skeið gegnt símaverkfræðingsstarfi, og ég hygg, að í því starfi hafi hann fengið það mikla þekkingu á þessum málum, að full ástæða sé til að fylgja ályktunum hans. Nú er mér ekki kunnugt, að hve miklu leyti núverandi landssímastjóri er sérfræðingur í þessum efnum. En sjálfsagður hlutur er það, að hann hefir verið við landssímann um mjög langt skeið og fengið mikla þekkingu á þessum málum. En þess ber vel að gæta, að hann hefir þó dálítið aðra aðstöðu í þessu máli en símaverkfræðingurinn, því að hann er sem sé annar aðilinn, sem um er deilt. Og þó að ég vilji engan veginn segja, að hann geti ekki verið óhlutdrægur, þá er þetta atriði þannig vaxið, að hér virðist um jafnhæfa menn að ræða til að leggja dóm á þetta mál. Og ég leyfi mér að álíta, að þar sem annar þessara manna er algerlega óviðkomandi þessu atriði, sem hér er um að ræða að breyta, þá sé ekki síður ástæða til að taka til greina álit hans en hins, sem er annar aðilinn, sem komið getur til mála að hafi yfirstjórnina á hendi.

Um hitt atriðið er náttúrlega öðru máli að gegna, það er ekki eins sérfræðilegs efnis. Þar verða það skoðanir þm., sem ráða úrslitum, án þess að leita þurfi sérþekkingar um þetta einstaka tilfelli. Um það er að ræða, hvort menn álíta, að með einkasölu á tækjunum megi tryggja almenningi sem greiðastan aðgang og bezt not af þessu fyrirtæki. Við teljum þetta verða til tryggingar því, að almenningur þurfi ekki að eiga á hættu að kaupa léleg tæki, sem getur valdið töluverðu fjártjóni. En mörg tæki geta verið ónothæf, og er það vitaskuld ekki á allra færi að velja úr, þegar mörgu er otað að mönnum af þeim, sem vilja verzla með tækin sér til hagnaðar. Síðan opinbert varð, að fullkomin útvarpsstöð yrði sett á fót, hefir rignt yfir almenning í landinu tilboðum um kaup á útvarpstækjum. Og mér er kunnugt, að ekki svo fáir hafa þegar keypt sér tæki. Og menn eru í auglýsingum hvattir til þess að vera búnir að tryggja sér tæki, þegar stöðin tekur til starfa. Maður sér það fyllilega, að bak við vakir hagsmunavonin um að geta selt tækin með einhverjum hagnaði.

En meiri hl. n. blandast ekki hugur um það, að hér sé um ákaflega mikilvægt atriði að ræða, sem skipti landsmenn bæði fjárhagslega og menningarlega. Það er ekki lítið atriði, að sem flestir verði aðnjótandi þeirra menningaráhrifa, sem fullkomin og vel rekin útvarpsstöð getur veitt, en þá er skilyrðið, að menn njóti þeirra beztu kaupkjara, sem unnt er að fá. Meiri hl. álítur, að þessu takmarki verði ekki náð með öðru móti en því, að taka upp einkasölu á tækjunum. Því er haldið fram að vísu, að þetta megi tryggja á annan hátt, — að leyfa sölu á vissum tækjum. Það er þá að nokkru leyti einkasala, þó að hún sé í höndum einstaklinga. En nú er það mjög líklegt, að þessi tæki fullkomnist, og það þurfi að hafa mjög vakandi auga á því, að ekki séu útilokuð þau beztu tæki. Og þó að heimild hafi verið veitt til að selja einhver viss tæki, þá getur farið svo, að þær tegundir verði úreltar, svo að nauðsynlegt verði að banna sölu á þeim. Ég hygg því, að þessi leið verði lítt notandi til þess að tryggja útvarpsnotendum hin beztu tæki. Aftur á móti tel ég hiklaust, að einkasöluleiðin sé heppilegasta leiðin til að ná þeim tilgangi, sem allir vilja ná, nefnilega að tryggja notendum sem bezt tæki með sem beztum kjörum.

Ég sé svo ekki ástæðu fyrir mig að fara fleiri orðum um þetta mál að svo komnu. Meiri hl. n., leggur til að samþ. frv., óbreytt, en minni hl. hefir ekki skilað áliti. Geri ég ráð fyrir, að hann skýri frá afstöðu sinni undir umr.