14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

238. mál, útvarp

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Aðeins örfá orð út af aths. í ræðu hv. 3. landsk.

Ég vil benda á það til að byrja með, að mér fannst óneitanlega töluverð mótsetning milli þeirra að sumu leyti alvarlegu orða í ræðu hans og hinsvegar tónsins í allri ræðunni í heild. Ræðan var yfirleitt flutt af gáska og gamansemi, sem bar vott um það, að í raun og veru meinti hv. 3. landsk. ekkert af því, sem hann sagði í sambandi við þetta frv. Ég ætla þó að taka til ofurlítið nánari athugunar sumt, sem hann talaði um.

Hann kvað þetta frv. vera eitt af embættafjölgunarfrv. þeim, sem stj. ber fram og heimtaði af sínum flokksmönnum að samþ. Út af þessu vil ég taka það fram, að ég geri ekki ráð fyrir, að starfsmönnum verði fjölgað nokkurn skapaðan hlut. Það er fullráðið, að Gunnlaugur Briem símaverkfræðingur, sem hefir undanfarið starfað við útvarpið og símann, verði áfram við útvarpið, þótt þessi skiplagsbreyt. komist á. Hvað snertir það fólk, sem vinnur að bókhaldi og innheimtu, þá verður einungis sú breyt., að yfirmaður þess verður yfirmaður útvarpsins, en ekki landssímastjóri. Það, sem hér er gert, er ekki fyrst og fremst það, sem hv. þm. benti á, að kljúfa stofnun, heldur er verið að fá einingu í þessa stofnun. Það er verið að starfa að því, að útvarpsráð og útvarpsstjóri, sem ber ábyrgð á menningarlegri hlið þessarar stofnunar, beri líka ábyrgð á hinni fjárhagslegu hlið, og það er áreiðanlega til meiri tryggingar um góða afkomu í hvívetna. Ég veit, að hv. 3. landsk. viðurkennir þetta á öðrum sviðum, þó að hann vilji ekki gera það í sambandi við þetta mál.

Þá talaði hann um þetta litla einokunarhreiður, sem stj. væri að búa þarna til með það fyrir augum eingöngu, að bjarga einhverjum flokksmanni sínum. Slíkar aðdróttanir hv. 3. landsk. og flokksbræðra hans læt ég mér í léttu rúmi liggja. Þó get ég frætt hann á því, hvernig ég hefi hugsað mér að koma þessu fyrir. Ég hefi ástæðu til að vonast til, að þessu geti orðið hagað á sama hátt og gert hefir verið með einkasölu á tilbúnum áburði. Þá verzlun hefir S. Í. S. annast fyrir hönd ríkissjóðs, og mér er hið sama í hug að biðja S. Í. S. að annast um sölu útvarpstækjanna, eins og um áburðinn, enda hefi ég fengið ádrátt um þetta hjá forstjóranum, þó að ekki sé gengið endanlega frá því enn. Ef svo reynist, sem ég vona, þá verður útvarpstækjaverzluninni hagað eins og áburðarverzluninni. Hv. 3. landsk. hefir fengið að sjá það samkv. þeirri skýrslu, er hæstv. fjmrh. las upp í byrjun þings, hvað áburðarverzlunin hefir kostað ríkissjóð hverfandi lítið. Og sama vænti ég, að komi á daginn með þessa einkasölu ríkisins á útvarpstækjum. Þó geri ég ráð fyrir einum manni, sem sé „tekniskur“ ráðunautur stj. um þessi tækjakaup, hliðstætt því, sem er um verkfærakaup og áburðarverzlun S. Í. S.

Hv. þm. fer með staðlausa stafi, er hann vill gera grýlu úr þessari væntanlegu einkasölu; og þegar hv. þm. segir, að í þetta skipti hafi verið lengst gengið til þess að koma ýmsum gæðingum stj. á ríkissjóð, þá vil ég aðeins benda hv. þdm. á, hve nauðalítið hv. 3. landsk. hirðir um sannleikann, úr því hann vill ganga algerlega framhjá því, hvað einkasalan með erlendan áburð hefir orðið ríkissjóði ódýr.

Í þessu sambandi minntist hv. 3. landsk. á sameining síma- og póstafgreiðslu, og talaði aðallega um tvær stöður, sem veittar hefðu verið nýlega, en svo undarlega vill til, að báðar þessar stöður voru veittar mönnum, sem ekki eru í flokki stj. Það er nú búið að skammast svo mikið í hv. Nd. um íhaldsnafnið, að ég þori varla að nefna það. Þó held ég, að ég verði að hætta á það. En önnur þessi staða; sem um er deilt, var veitt íhaldsmanni, en hin jafnaðarmanni.