14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (2387)

238. mál, útvarp

Jón Þorláksson:

Hæstv. forsrh. þótti ég fara með spaug og gáska og hafði fundið út, að engin alvara væri í orðum mínum. En það var ekki meining mín að fara með spaug eða gáska. Að hinu get ég ekki gert, þegar minnzt er á tilhneigingu hæstv. stj. að fjölga nýjum embættum stuðningsmanna sinna vegna, og það borið saman við það, sem hún hafði áður sagt um óþarfa embætti, þó að stj. finnist það líkast háði. En þetta er fullkomin meining hjá mér; og þó að ekki sé tími til þess að upplýsa þetta frekar nú, þá mun það verða gert síðar.

Ég ætla þá að taka hæstv. forsrh. á þeirri einu upplýsingu, sem hann gaf í þessu efni. Hann sagði, að eini sérfræðingurinn á þessu sviði í rafmagni og lágspennu, en það er Gunnlaugur Briem verkfræðingur, væri ráðinn við útvarpið og yrði áfram við það. Ég geri ráð fyrir, að svo verði, en hvað verður þá um loftskeytastöðina? Nú er enginn lærður verkfræðingur til þess að taka það starf að sér, svo ætla má, að útvega verði nýjan mann, sem hlýtur að hafa talsverðan kostnað í för með sér. Það þykir nú kannske undarlegt af mér að vilja ekki fjölga embættum verkfræðinga vegna. (Forsrh.: Það verður engin breyting á þessu). Það er m. ö. o. að skilnaðurinn á ekki að verða nú þegar. En mér skilst, að eftirleiðis eigi húsbændurnir að vera tveir, og þá verkfræðingurinn tveimur herrum að þjóna, og ég veit, að hæstv. forsrh. er svo vel að sér í sinni sérgrein, að hann veit hvílíkir erfiðleikar eru taldir — og það af góðum og gildum höfundum — að þjóna tveimur herrum.

Það er því sýnilegt, að hér þarf tvo menn að vinna starf, sem einum var ætlað áður. Hér er því um skort á hagsýni að ræða, að búta í sundur embætti og gera tvö úr því. Og þeir, sem líta á hag alþjóðar og aukinn kostnað fyrir ríkissjóð, þeir skoða þetta sem skort á hagsýni. En hinir, sem vilja nota ríkissjóðinn sér til kjörfylgis með stofnun nýrra og óþarfra embætta, þeir kalla þetta kannske hagsýni — fyrir sig!

Þá sagði hæstv. forsrh., að hann ætlaði að fela S. Í. S. að annast kaup á útvarpstækjum og öllu þar að lútandi. En frv. ber það ekki með sér. Eftir því virðist einkasalan eiga að standa í nánu sambandi við útvarpsstöðina og útvarpsstöðin á að hafa færa menn, sem geta metið tækin. Ef koma á þessari nýju einkasölu fyrir á þann hátt, sem hæstv. forsrh. gaf í skyn, þá er kannske ekki rétt að segja, að með henni sé verið að búa til nýtt hreiður, heldur að orpið sé eggi í hreiður, sem áður var til og búið að verpa oft í.

Hv. frsm. meiri hl. þarf ég ekki miklu að svara. Ég átti ekki við annað en að málið hefði átt að mæta þinglegri afgreiðslu eins og önnur mál. Það er vani að ákveða í n., hvaða afgreiðslu mál skuli fá, en við minnihl.menn vorum ekki viðstaddir þegar málið var afgr. og hefði verið jafnauðvelt að kalla okkur á fundinn eins og hv. meiri hl., þar sem við vorum staddir í húsinu.

Hv. frsm. meiri hl. var með aðdróttanir í minn garð, að af því að ég ræki verzlun sjálfur, þá vildi ég láta verzlunarmenn og kaupmenn selja hér í landi ónýt eða léleg útvarpstæki. En þetta er gamall söngur, sem Íslendingar ættu sízt að kveða. Hér var áður til einokun, en þá var engin innlend verzlunarstétt til. En þessi einokun gafst erlendum kaupmönnum vel, en varð jafnframt til tjóns og niðurdreps einstaklingum þjóðarinnar. Þá voru uppi menn, sem álitu eins og kom nú fram í ræðu hv. þm., að Íslendingar væru svo einfaldir, að hafa yrði gát á þeim allt ofan frá föðurhúsunum, hvaða vörur þeir keyptu og hvað þær ættu að kosta. Þessi föðurhandleiðslutilhneiging — um að vantreysta einstaklingunum til þess að verja á hagkvæman hátt sínum litlu aurum — hún lifir í hug og hjarta hv. 2. þm. S.-M., en hann ætti að reyna að útrýma henni sem fyrst.

Af Skúla Magnússyni, Jóni Sigurðssyni og ýmsum fleiri voru kröfurnar bornar fram um frjálsa verzlun og móti því, sem hv. 2. þm. S.-M. heldur nú fram. Það er sami draugurinn, sem þessir ágætu menn börðust við, og þó að ákaflega hafi af honum dregið, þá leynist lengi líf með slíkum draug, eins og sjá má á því, að ekki svo lítil líftóra hans skuli enn lifa í huga og hjarta hv. 2. þm. S.-M.