14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

238. mál, útvarp

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég neita algerlega því, sem hv. 3. landsk. sagði, að stj. hefði sérstaka tilhneigingu til þess að stofna ný embætti, nema að því leyti, sem ný verkefni koma fyrir, sem heimta nýja menn. Hinu mótmæli ég sem tilhæfulausu, að stj. noti ríkissjóð með nýjum launagreiðslum til þess að tryggja sér kjörfylgi, enda mundi slík framkoma verða hverri stj. að falli. Ég neita því algerlega, að ásakanir hv. 3. landsk. í garð stj. í þessu efni séu á nokkrum rökum byggðar.

Annars vildi ég benda á, að þar sem hann tók þetta dæmi um Gunnlaug Briem verkfræðing, þá er það rangt, því að þessi ungi maður fær laun sín frá tveimur stofnunum eins og nú, sem sé síma og útvarpi. Og svo verður áfram, og útkoman því sú, að á þessu verður engin breyt.

Allt hjal hv. 3. landsk. um að búta sundur embætti og gera tvö úr því, hefir því ekki við nein rök að styðjast.

Hitt er alveg rétt hjá hv. 3. landsk., að af frv. sést ekki, hvernig einkasala þessi skuli rekin. Stj. getur sett upp sérstaka verzlun, og það gat hún líka samkv. lögunum um einkasölu á áburði. En hún gerði það ekki þá. Og þar sem áburðarverzlunin hefir gefizt svo vel, sem raun ber vitni, þá mun ég, svo framarlega sem S. Í. S. vill taka að sér þessa verzlun með útvarpstæki, fela því hana. Ég fyrir mitt leyti treysti engum betur að annast þau innkaup svo, að allir megi vel við una.

Út af þeim orðum; sem hv. 3. landsk. lét falla um baráttu Skúla Magnússonar og Jóns Sigurðssonar, mætti tala langt mál; rök hans voru röng, en ég ætla þó ekki að snúa mér frekar að þeim að þessu sinni, til þess að lengja ekki umr. að óþörfu.