10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Viðvíkjandi fyrirspurn 1. þm. Skagf. er það að segja, að þetta frv. er samið sem rammi, er í aðalatriðum á að marka stefnuna, hvernig um bú bankans fer. Hitt verður að ákveða með reglugerð. Sá maður, sem samið hefir frv., Ólafur Lárusson prófessor, hafði í höndum lög, sem gilt hafa í Noregi og Danmörku um banka, sem líkt stendur á fyrir. Einkum hefir hann notað dönsku lögin. Hann telur frv. nægilega grind um þau fyrirmæli, sem síðar verða sett með reglugerð. Að öðru leyti skal ég taka fram, að ég geri ekki ráð fyrir, að beitt verði miklum hörkubrögðum við skuldunauta, heldur verði reynt að fara að þeim sem vægast.

Þá minntist hv. þm. á, hvernig skilanefnd ætti að vera samsett. Í Danmörku og Noregi hafa gilt ýmsar reglur. Skilanefndarmenn hafa þar venjulega verið 5 eða 7, en samkomulag varð um, að hér væri nóg að hafa þrjá. Og það varð úr, að einfeldast þótti, að fjmrh. skipaði þá alla. Danmörku eru oft skipaðir nefndarmenn af öðrum aðilum, svo sem viðskiptamönnum bankans. Slíkt væri erfitt hér: Ég sé ekki, að það taki því að hafa nm. fleiri. Og þá ekki heldur að fara að safna atkv. um það, hvort skipa skuli þennan eða hinn. (ÓTh: En að kjósa í sameinuðu þingi?). Það held ég ekki hafi neinstaðar viðgengizt hingað til.

Viðvíkjandi nefndinni, sem setja á samkv. mínum till., get ég sagt, að hægt ætti að vera að skipa hana á morgun, með því skilyrði, að frv. verði þá gengið gegnum Nd. Ég þarf að vita, hvernig því reiðir af. Ég bjóst við, að n. yrði áætlað að ljúka starfi sínu á 12 dögum, svo að þingið fengi tækifæri til að taka til athugunar niðurstöður n. og gera ráðstafanir, sem nauðsynlegar þættu, eftir því sem fyrir lægi þá.

Helzt hefði ég kosið, að hv. þd. hefði treyst sér til að ganga frá málinu í kvöld. Umr. hafa verið svo hóflegar, að allt bendir í þá átt, að hv. þdm. vilji greiða götu málsins sem bezt eins og það liggur fyrir. Menn hafa það á meðvitundinni, að hér er vandamál, sem ekki er heppilegt, að hita sé hleypt í. En ef hv. þm. hafa í hyggju að bera fram brtt. við frv., getur það tafizt.